Ferðaþjónusta var orðin ein mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga og sú mikilvægasta þegar kom að öflun gjaldeyris í þjóðarbúið. Hlutur fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu á Íslandi vegur þar þungt. Nú eru blikur á lofti í þeirri starfsemi og við blasir grafalvarleg staða sem að óbreyttu gæti leitt til fjöldagjaldþrota og algjörs hruns á grundvallarinnviðum ferðaþjónustunnar.
Force majerue ástand í ferðaþjónustunni
Stjórn FHG – Fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu, leitaði um miðjan apríl sl. til Viðars Más Matthíassonar, fyrrverandi hæstaréttardómara og núverandi rannsóknarprófessors við HÍ. Álitsgerð hans leiddi í ljós að sú réttaróvissa sem uppi er kallaði á sérstök viðbrögð og jafnvel lagasetningar gagnvart fjármálastofnunum, fasteignaeigendum og öðrum sem, t.a.m. hótel- og gistihúsarekendum, standa nú nær algjörlega tekjulausir. Fordæmi slíkra viðbragða blasa við frá árunum 2008 og 2009 í kjölfar bankahrunsins.
Í álitinu rekur Viðar Már þær fjórar reglur sem geta leyst aðila undan efndaskyldu, Þ.e.
- reglan um force majerue
- reglan um brostnar forsendur
- 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógildi löggerninga
- reglan um stjórnarábyrgð (efndahindrun)
Í lokaniðurstöðu segir:
„Þær aðstæður sem nú eru uppi vegna heimsfaraldurs COVID-19 sjúkdómsins og yfirvaldsákvarðanir um ferðatakmarkanir og samkomubann eru þess eðlis að rök eru til þess að telja þær hindrun í framangreindum skilningi. Slík hindrun veldur því að ekki kemur til skaðabótaskyldu eða greiðslu dráttarvaxta þegar ekki er efnt samkvæmt aðalefni samnings.“
Álit Viðars Más getur breytt miklu um samningsstöðu aðila m.a. gagnvart fasteignaeigendum og lánastofnunum. Nauðsynlegt reyndist að skapa aðilum svigrúm til samninga og endurspeglast sú nauðsyn í frumvarpi um einfaldari fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, sem dómsmálaráðherra lagði fram og er nú til umfjöllunar á Alþingi.
Stuðningur stjórnvalda
Ekki verður efast um vilja stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustuna með ráðum og dáð, svo innviðir hennar haldist svo sterkir sem verða má þegar hingað taka að streyma ferðamenn að nýju. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að sporna við áhrifum COVID-19. Það sem helst er til umræðu nú er;
- Frumvarp til laga um tímabundnar heimildir til fjarhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.
- Stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hlutabóta og greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.
- Brúarlán til atvinnulífsins.
- Frestun gjalddaga skattgreiðslna.
Ofangreindar aðgerðir og margar fleiri, sem gripið hefur verið til eiga að stuðla að því að þegar faraldrinum lýkur verði enn til fyrirtæki sem geta hafið öfluga starfsemi með skömmum fyrirvara og fært gjaldeyrisöflun þjóðarinnar í fyrra horf. Margt bendir til að þessar aðgerðir muni ekki duga.
Staðan í dag
Núna eru flest hótel á landinu lokuð og þau sem þó eru opin standa að mestu tóm og safna upp fjármagnskostnaði og rekstrarskuldum. Það eru einkum þrír aðilar sem verða fyrir miklu tjóni af þessum völdum.
Þessir aðilar eru nú þegar að takast á og fyrirsjáanlegt er að leita þarf samninga þeirra á milli í því sameiginlega skipsbroti sem COVID-19 hefur orsakað. Þessir aðilar eru leigutakar, leigusalar og fjármagnseigendur (bankar og lífeyrissjóðir)
- Leigutakar munu eiga kost á tímabundnu greiðsluskjóli með nýju lagafrumvarpi um einfaldari fjárhagslega endurskipulagningu. Í mörgum leigufélögum er mikil sérþekking, sem tekið hefur langan tíma að byggja upp og því brýnt að þessir aðilar fái andrými til að leita samninga.
- Leigusalar/fasteignaeigendur geta fengið 6 mánaða frestun á greiðslu afborgana og vaxta með tiltölulega auðveldum hætti og nýtt tímann til samninga við lánastofnanir.
- Fjármagnseigendur (bankar og lífeyrissjóðir) koma að málum, sem lánveitendur til bæði leigutaka og leigusala. Uppistaðan af þeirra kröfum eru veðlán. Þessir aðilar eru augljóslega efstir í virðiskeðjunni.
Undanfarna mánuði hefur það komið í ljós hversu alvarleg staða er uppi og leigutakar og leigusalar gera sér æ betur grein fyrir að ekki dugir að leysa vandann eingöngu með skuldasöfnun. Inn í jöfnuna þarf líka að taka vanda fjármagnseigenda því vandinn færist upp alla virðiskeðjuna.
Það er ljóst að til lengri tíma nást vart viðunandi samningar milli þessara þriggja aðila nema fjármagnseigendum sé gert kleift að fella niður eða lækka vexti á fyrirtæki sem eru í „frosti“ . Annars er hætta á að óviðráðanlegur skuldavandi blasi við fyrirtækjum, t.d. eigendum hótelbygginga að „frosti“ loknu. Þessar skuldir bætast síðan við uppsafnaðan taprekstur rekstrarfélaga á „frosttímabilinu“ og eignir færast smám saman upp virðiskeðjuna.
Stefnir í svipað ástand og eftir bankahrun?
Það er ljóst að næsta skref er að leita leiða til að taka á vanda fjármagnseigenda og gera þeim kleift að fella niður eða lækka verulega fjármagnskostnað hjá fyrirtækjum á meðan þau eru í „frosti“. Slík aðgerð er forsenda þess að heildarjafnan gangi upp og ofangreindir aðilar verði jafnsettir að „frostinu“ afloknu.
Leikreglur fjármálakerfisins eru þannig að því ber að vinna með ákveðnum hætti. Þau úrræði, sem nú blasa við kalla aðeins á eina sviðsmynd, sem því miður minnir æ meira á þróunina eftir bankahrunið þar sem lánastofnanir leystu til sín stóran hluta atvinnulífsins.
Gera þarf fjármálastofnunum kleift að koma til móts við leigusala, sem aftur gætu komið til móts við leigutaka, sem hafa verið án tekna mánuðum saman. Ef stjórnvöld beita sér ekki fyrir frystingu og niðurfellingu vaxta í 12-24 mánuði munu fjármálastofnanir hægt og hljótt eignast allar fjármagnsþungar eignir í ferðaþjónustunni.
Markmið stjórnvalda í upphafi COVID-19 var að koma í veg fyrir stórfellda tilfærslu á eignum. Verði ekkert að gert stefnir í að á næsta ári verðum við í sömu stöðu og við vorum eftir hrun þar sem aftasti aðilinn í virðiskeðjunni leysti til sín eignirnar. Þá komu menn fljúgandi frá útlöndum og voru kallaðir hrægammar.
Höfundur er formaður stjórnar FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.
Ferðaþjónusta var orðin ein mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga og sú mikilvægasta þegar kom að öflun gjaldeyris í þjóðarbúið. Hlutur fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu á Íslandi vegur þar þungt. Nú eru blikur á lofti í þeirri starfsemi og við blasir grafalvarleg staða sem að óbreyttu gæti leitt til fjöldagjaldþrota og algjörs hruns á grundvallarinnviðum ferðaþjónustunnar.
Force majerue ástand í ferðaþjónustunni
Stjórn FHG – Fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu, leitaði um miðjan apríl sl. til Viðars Más Matthíassonar, fyrrverandi hæstaréttardómara og núverandi rannsóknarprófessors við HÍ. Álitsgerð hans leiddi í ljós að sú réttaróvissa sem uppi er kallaði á sérstök viðbrögð og jafnvel lagasetningar gagnvart fjármálastofnunum, fasteignaeigendum og öðrum sem, t.a.m. hótel- og gistihúsarekendum, standa nú nær algjörlega tekjulausir. Fordæmi slíkra viðbragða blasa við frá árunum 2008 og 2009 í kjölfar bankahrunsins.
Í álitinu rekur Viðar Már þær fjórar reglur sem geta leyst aðila undan efndaskyldu, Þ.e.
- reglan um force majerue
- reglan um brostnar forsendur
- 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógildi löggerninga
- reglan um stjórnarábyrgð (efndahindrun)
Í lokaniðurstöðu segir:
„Þær aðstæður sem nú eru uppi vegna heimsfaraldurs COVID-19 sjúkdómsins og yfirvaldsákvarðanir um ferðatakmarkanir og samkomubann eru þess eðlis að rök eru til þess að telja þær hindrun í framangreindum skilningi. Slík hindrun veldur því að ekki kemur til skaðabótaskyldu eða greiðslu dráttarvaxta þegar ekki er efnt samkvæmt aðalefni samnings.“
Álit Viðars Más getur breytt miklu um samningsstöðu aðila m.a. gagnvart fasteignaeigendum og lánastofnunum. Nauðsynlegt reyndist að skapa aðilum svigrúm til samninga og endurspeglast sú nauðsyn í frumvarpi um einfaldari fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, sem dómsmálaráðherra lagði fram og er nú til umfjöllunar á Alþingi.
Stuðningur stjórnvalda
Ekki verður efast um vilja stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustuna með ráðum og dáð, svo innviðir hennar haldist svo sterkir sem verða má þegar hingað taka að streyma ferðamenn að nýju. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að sporna við áhrifum COVID-19. Það sem helst er til umræðu nú er;
- Frumvarp til laga um tímabundnar heimildir til fjarhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.
- Stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hlutabóta og greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.
- Brúarlán til atvinnulífsins.
- Frestun gjalddaga skattgreiðslna.
Ofangreindar aðgerðir og margar fleiri, sem gripið hefur verið til eiga að stuðla að því að þegar faraldrinum lýkur verði enn til fyrirtæki sem geta hafið öfluga starfsemi með skömmum fyrirvara og fært gjaldeyrisöflun þjóðarinnar í fyrra horf. Margt bendir til að þessar aðgerðir muni ekki duga.
Staðan í dag
Núna eru flest hótel á landinu lokuð og þau sem þó eru opin standa að mestu tóm og safna upp fjármagnskostnaði og rekstrarskuldum. Það eru einkum þrír aðilar sem verða fyrir miklu tjóni af þessum völdum.
Þessir aðilar eru nú þegar að takast á og fyrirsjáanlegt er að leita þarf samninga þeirra á milli í því sameiginlega skipsbroti sem COVID-19 hefur orsakað. Þessir aðilar eru leigutakar, leigusalar og fjármagnseigendur (bankar og lífeyrissjóðir)
- Leigutakar munu eiga kost á tímabundnu greiðsluskjóli með nýju lagafrumvarpi um einfaldari fjárhagslega endurskipulagningu. Í mörgum leigufélögum er mikil sérþekking, sem tekið hefur langan tíma að byggja upp og því brýnt að þessir aðilar fái andrými til að leita samninga.
- Leigusalar/fasteignaeigendur geta fengið 6 mánaða frestun á greiðslu afborgana og vaxta með tiltölulega auðveldum hætti og nýtt tímann til samninga við lánastofnanir.
- Fjármagnseigendur (bankar og lífeyrissjóðir) koma að málum, sem lánveitendur til bæði leigutaka og leigusala. Uppistaðan af þeirra kröfum eru veðlán. Þessir aðilar eru augljóslega efstir í virðiskeðjunni.
Undanfarna mánuði hefur það komið í ljós hversu alvarleg staða er uppi og leigutakar og leigusalar gera sér æ betur grein fyrir að ekki dugir að leysa vandann eingöngu með skuldasöfnun. Inn í jöfnuna þarf líka að taka vanda fjármagnseigenda því vandinn færist upp alla virðiskeðjuna.
Það er ljóst að til lengri tíma nást vart viðunandi samningar milli þessara þriggja aðila nema fjármagnseigendum sé gert kleift að fella niður eða lækka vexti á fyrirtæki sem eru í „frosti“ . Annars er hætta á að óviðráðanlegur skuldavandi blasi við fyrirtækjum, t.d. eigendum hótelbygginga að „frosti“ loknu. Þessar skuldir bætast síðan við uppsafnaðan taprekstur rekstrarfélaga á „frosttímabilinu“ og eignir færast smám saman upp virðiskeðjuna.
Stefnir í svipað ástand og eftir bankahrun?
Það er ljóst að næsta skref er að leita leiða til að taka á vanda fjármagnseigenda og gera þeim kleift að fella niður eða lækka verulega fjármagnskostnað hjá fyrirtækjum á meðan þau eru í „frosti“. Slík aðgerð er forsenda þess að heildarjafnan gangi upp og ofangreindir aðilar verði jafnsettir að „frostinu“ afloknu.
Leikreglur fjármálakerfisins eru þannig að því ber að vinna með ákveðnum hætti. Þau úrræði, sem nú blasa við kalla aðeins á eina sviðsmynd, sem því miður minnir æ meira á þróunina eftir bankahrunið þar sem lánastofnanir leystu til sín stóran hluta atvinnulífsins.
Gera þarf fjármálastofnunum kleift að koma til móts við leigusala, sem aftur gætu komið til móts við leigutaka, sem hafa verið án tekna mánuðum saman. Ef stjórnvöld beita sér ekki fyrir frystingu og niðurfellingu vaxta í 12-24 mánuði munu fjármálastofnanir hægt og hljótt eignast allar fjármagnsþungar eignir í ferðaþjónustunni.
Markmið stjórnvalda í upphafi COVID-19 var að koma í veg fyrir stórfellda tilfærslu á eignum. Verði ekkert að gert stefnir í að á næsta ári verðum við í sömu stöðu og við vorum eftir hrun þar sem aftasti aðilinn í virðiskeðjunni leysti til sín eignirnar. Þá komu menn fljúgandi frá útlöndum og voru kallaðir hrægammar.
Höfundur er formaður stjórnar FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.