Hrafnarnir voru með útsendara á landsfundarhófi Sjálfstæðisflokksins á laugardag. Þar héldu Ungir sjálfstæðismenn uppboð og á meðal þess sem boðið var upp var vodkaflaska frá Jóni Gunnarssyni og íþróttabolur í „one size fits all“ úr einkasafni Geirs Haarde.
Tvennt þótti gestum eilítið vandræðalegt. Hið fyrra var kynnt sem sundferð með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur varaformanni og utanríkisráðherra. Þá fór kurr um salinn. Sundferð.
Nokkur boð bárust en skyndilega kom miklu hærra boð en næsta á undan, eða 300 þúsund krónur. Hæstbjóðandi var Tómas Sigurðsson forstjóri HS Orku og er þetta líklega til marks um hvað vel gengur í orkubransanum. Áréttuðu þá uppboðshaldarar að þetta væri sundnámskeið með Þórdísi, sem er gömul sundkempa af Akranesi, en ekki miðnætursund eins og sumir höfðu gantast með.
Hið síðarar voru hækjur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Bjóðendur þyrftu þó að gæta að einu skilyrði, að Guðlaugur Þór þyrfti hækjurnar í nokkrar vikur til viðbótar. Lágmarksboð var 100 þúsund krónur. Og svo var löng þögn. Ekkert boð kom. Þá var lágmarksboðið lækkað í 50 þúsund og þá loks kom boð. Hækjurnar fóru að lokum á 100 þúsund krónur.
Einn ráðherra úr ríkisstjórninni, sem var ekki kátur með framboð Guðlaugs Þór til formanns, sagði að Guðlaugur Þór hefði sjálfur átt hæsta boð. Það fékkst ekki staðfest áður en blaðið fór í prentun.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 10. nóvember.