Í síðustu viku veitti Orkustofnun Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir vindorkuverið Búrfellslund. Stendur til að reisa um þrjátíu vindmyllur sem ná allt að 150 metra upp í loft. Þetta er í fyrsta sinn sem gefið er út leyfi til vindorkuvirkjunar hér á landi.

Í síðustu viku veitti Orkustofnun Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir vindorkuverið Búrfellslund. Stendur til að reisa um þrjátíu vindmyllur sem ná allt að 150 metra upp í loft. Þetta er í fyrsta sinn sem gefið er út leyfi til vindorkuvirkjunar hér á landi.

Eins og við mátti búast brást Landvernd illa við og sagði Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, virkjunarleyfið mikið áhyggjuefni. Stjórnvöld hafi ekki mótað framtíðarstefnu í vindorkumálum og þrýsta þurfi á að slík stefna sé mótuð áður en haldið sé lengra.

***

Framkvæmdastjórinn lætur því hljóma eins og stjórnvöld og ráðherrann sem ábyrgur er fyrir málaflokknum séu ekki að standa sig í stykkinu við að móta stefnu í kringum uppbyggingu vindorku. Það rétta er þó að ráðherra málaflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, og hans ráðuneyti hefur svo sannarlega gert það. Á síðasta löggjafarþingi lagði Guðlaugur til að mynda fram þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

Það vill einmitt svo skemmtilega til að Landvernd skilaði inn umsögn um þingsályktunartillöguna sem snerist, eins og flest annað sem frá samtökunum kemur, í stórum dráttum um að það væri alls enginn orkuskortur á Íslandi.

Ekki tókst að fá þingsályktunina samþykkta af þinginu og málið dó í nefnd. Má ætla að andstaða Vinstri grænna, móðursamtaka Landverndar, hafi haft mest um það að segja. Að sama skapi tókst ekki að koma frumvarpi um flokkun vindorkuvirkjunarkosta í rammaáætlun í gegnum þingið.

***

Eins og mikið hefur verið fjallað um á síðum Viðskiptablaðsins ríkir grafalvarleg staða í orkumálum. Orkuskortur er þegar til staðar og blasir við að það mun ekki breytast meðan kyrrstaða ríkir í málaflokknum, með tilheyrandi tapi fyrir þjóðarbúið. Ekki bara í formi glataðra útflutningstekna hjá fyrirtækjum sem þurfa að sætta raforkuskerðingum heldur einnig í töpuðum tækifærum. Landsvirkjun og Landsnet hafa til að mynda sagt að félögin hafi þurft að hafna fjölmörgum verkefnum vegna stöðu flutningskerfisins og/eða skorts á framboði á raforku.

Landvernd, Vinstri grænir og fleiri hafa svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að tryggja þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í orkumálum. Raunar virðist helsta markmið þessara aðila vera að færa lífskjör í landinu aftur um áratugi, sem yrði raunin ef hætt yrði að selja raforku til stórnotenda.

Til að setja hlutina í samhengi má ætla að ef Landvernd hefði áhuga á húsnæðismálum yrði lausn samtakanna við íbúðaskorti einfaldlega að byggja ekki framar hús. Þess í stað yrði bara sífellt fleirum troðið í hverja íbúð. Týr efast um að samtök sem færu fram með slíkan málflutning fengju jafn mikið pláss í umræðunni og Landvernd fær í umræðu um orkumál.

Týr er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.