Sjálfsagt hefur það komið einhverjum að óvörum að kjaraviðræður á almenna markaðnum eru komnar í hnút. Af umfjöllun fjölmiðla að dæma er ásteytingssteinninn að Samtök atvinnulífsins vilja ekki semja um forsenduákvæði verkalýðshreyfingarinnar. Þau snúa að því að grunnvextir Seðlabankans verði búnir að lækka um  250 punkta á næstu tólf mánuðum og stigin verði markviss skref í átt að verðtryggingu launa.

Af málflutningi verkalýðshreyfingarinnar að dæma er litið á þetta sem hálfgerð smáatriði sem litlu máli skipta í hinu stóra samhengi hlutanna. Verður það að teljast undarleg sýn, ekki síst í ljósi þess að þarna er hreinlega vegið að grunnstoðum peningastefnunnar eins og hún birtist í lögum.

Það er að segja að því leyti að Seðlabankinn gæti aldrei tekið tillit til ákvæða í kjarasamningum – hvorki vorið 2025 eða á öðrum tíma – þegar kemur að vaxtaákvörðunum: þar ráða verðbólguhorfur og ástandið í hagkerfinu för. Þessu gera samningamenn Samtaka atvinnulífsins sér grein fyrir og að slíkt ákvæði væri annaðhvort merkingarlaust eða ávísun á skammtímakjarasamning.

***

Þetta mál kom til tals þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri sátu fyrir svörum á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á þriðjudag.

Spurður út í forsenduákvæðin sem kjaraviðræðurnar steyttu nú á benti seðlabankastjóri á hið augljósa: Að menn gætu samið um hvað sem þeir vildu en að Seðlabankinn héldi sínu striki lögum samkvæmt. Seðlabankastjóri sagði einnig að „stýrivaxtaákvæði í kjarasamningum væri ekki góð hugmynd, hagfræðilega“.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2 og Vísi, virtist einungis hafa hafa heyrt fyrri hluta ummæla Ásgeirs seðlabankastjóra á nefndarfundinum. Hann flutti tvær fréttir þar sem fjallað var um að Seðlabankastjóri segði slíkt forsenduákvæði ekki binda hendur bankans við vaxtaákvarðanir og fléttaði saman við vígreifan Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, sem boðaði frekari vinnudeilur og verkföll.

Ragnar var ekki spurður út í ummæli seðlabankastjóra um að forsenduákvæðin sem verkalýðshreyfingin berðist fyrir væru hagfræðileg della. Enda ættu flestir að sjá í hendi sér að ef stýrivextir yrðu búnir að lækka um 250 punkta á næstu tólf mánuðum væri það að endurspegla gjörbreyttan efnahagslegan veruleika – verðhjöðnun sem væri knúin áfram af skörpum samdrætti.

Að sama skapi væri það til marks um árangursleysi í baráttunni við verðbólguna – baráttu sem deiluaðilar segjast opinberlega vera sammála um að kjarasamningar eigi að leiða til lykta – ef stýrivextir verða óbreyttir eða hærri eftir tólf mánuði. Í þeirri stöðu myndi verkalýðshreyfingin segja upp samningunum ef Seðlabankinn myndi ekki hlýða kröfu hennar um 250 punkta -lækkun á stundinni.  Slíkar efnahagslegar aðstæður kalla ekki á óvissu í kjaramálum, uppsögn samninga eða þá launahækkanir.

***

Veislan hélt áfram síðar um daginn. Þá var Ragnar mættur í síðdegisútvarpið á Rás 2. Þar klóruðu þáttastjórnendurnir, Guðrún Dís Emilsdóttir og Valur Grettisson, sér í -kollinum yfir því hvers vegna forsenduskilyrði verkalýðshreyfingarinnar gengju ekki upp.

Valur margvísaði í áðurnefnda frétt Vísis um ummæli seðlabankastjóra á nefndar-fundinum um að forsenduákvæði hefðu engin áhrif á sjálfstæði Seðlabankans en tók ekki fram að hann teldi það vera hagfræðilega dellu að tengja vaxtastig við launa-þróun. Það -hefur væntanlega verið af þeim sökum að þáttastjórnendurnir gátu ekki skilið frekar en Ragnar hvað býr að baki afstöðu SA í málinu.

Reyndar var viðtalið æði sérstakt vegna þess hve innilega þau Guðrún Dís og Valur voru sam-mála ræðu Ragnars um ábyrgðarleysi atvinnurekenda og fyrirtækjaeigenda. Vafalaust myndi eitthvað heyrast ef Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, mætti í viðtal í Efstaleitið og spyrlar kepptust við að kalla inn „já, einmitt“ og „nákvæmlega“ milli þess að kinka kolli undir ræðu framkvæmdastjórans. Þeir enduðu svo samtalið með því að dást að því hversu „grjót-harðir og á sömu bylgjulengd“ atvinnu-rekendur væru í kjaradeilunni og segðust „vonast eftir“ niðurstöðu sem væri viðmælandanum að skapi.

Áhugamenn um pólitíska innrætingu og einhliða skoðanaskipti fengu meira fyrir sinn snúð þennan eftirmiðdag. Í kjölfarið viðtalsins við Ragnar var flutt samtal við Þorgerði Maríu Þorbjarnardóttir formanns Landverndar sem var ekki síðra en fyrra viðtalið.

***

DV og Morgunblaðið sögðu frá því að mótmælandi á Austurvelli veittist að Diljá Mist Einarsdóttir, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á dögunum. Í frétt á vefútgáfu Morgunblaðsins segir:

„Karlmaður sem var þátttakandi í Palestínumótmælum fyrir utan Alþingi fyrr í dag kastaði hlut í bíl Diljár Mist Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Sagði hann henni að „fokka sér“ ítrekað og lét önnur fúkyrði fylgja.

Diljá kveðst vera brugðið yfir atvikinu, í samtali við mbl.is.

„Ég var að koma úr umræðum á þinginu og keyra upp rampinn hjá okkur. Auðvitað þarf maður að fara sér hægt til að gæta að gangandi vegfarendum og þá kastar fullorðinn karlmaður einhverju í bílinn minn og mér verður alveg svakalega um. Ég veit ekki hverju hann kastar í bílinn, fyrir það fyrsta, og svo er hann náttúrulega líka bara nálægt mér,“ seg-ir Diljá Mist.“

Diljá var einnig til viðtals í Bítinu á Bylgjunni og þar kom þessi óskemmtilega uppákoma til tals. Þar sagði Diljá:

„Ég vissi ekki að við værum búin að snúa til baka í þessum málum. Ég vissi ekki að við værum að segja við konur sem fullorðnir menn eru að ógna að þær eigi að þegja yfir því af því að það séu aðrir sem hafa það verr. Fólk áttar sig á því að það er verið að veitast að mér út af mínum störfum, mínum skoðunum jafnvel meintum skoðunum eða hvað maður á að kalla það. Auk þess sem við líðum það ekki í þessu samfélagi að karlmenn telji sig geta veist svona að konum. Það er svo langt síðan að sú lína var dregin í sandinn.“

Það er greinilegt að Ríkisútvarpið telur eins og sumir sem Diljá vísar til að þingmaðurinn eigi bara að þegja yfir þessu. Að minnsta kosti þótti RÚV ekki fréttnæmt að veist hefði verið að þingmanni.

Sem er áhugavert þar sem ein af aðalfréttum Ríkisútvarpsins á miðvikudag fjallaði um að tveimur nafnlausum opinberum starfsmönnum hefði verið hótað ofbeldi við störf sín. Í þeirri frétt segir:

„Tveimur starfsmönnum Matvælastofnunar var nýverið hótað við reglubundið eftirlit í matvælafyrirtæki. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Mast, segir að þeim hafi verið hótað líkamlegu ofbeldi. Það er tekið mjög alvarlega og öll slík atvik eru umsvifalaust kærð til lögreglu,“ segir Hrönn.

Þá hefur RÚV eftir Hrönn að starfsmönnunum sé brugðið eftir hótanirnar og bætir því við að enginn eigi að þurfa að upplifa slíkt. Hægt er að taka heilshugar undir það síðastnefnda.

***

Í Silfrinu í síðustu viku var rætt við Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Kristínu Eiríksdóttur, sem fóru sem kunnugt er til Egyptalands til að hjálpa palestínskri fjölskyldu til að komast frá hinu stríðshrjáða Gaza-svæði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson fréttamaður skrifaði um málið á vef Ríkisútvarpsins. Í umfjöllun sinni kom hann inn á skrif Morgunblaðsins um að mútur kæmu gjarnan við sögu þegar verið væri að reyna koma fólki frá Palestínu gegnum egypsku landamærin. Í umfjölluninni segir:

„Kristín var spurð út í skrif í Staksteinum, ómerktum dálki í Morgunblaðinu, um mútugreiðslur.

„Við þurftum ekki að borga mútur og við vorum ekki veifandi seðlabúntum við landamærin,“ sagði Kristín. Hún sagði að borga hefði fyrir ákveðna þjónustu, hraðmeðferð og flutning á fólkinu. Að auki hefði þurft að borga fyrir alla pappíra.

Í Staksteinum var vísað í viðtal við konurnar sem björguðu fólkinu á Mbl.is þar sem sagði að kostnaður við björgun hvers og eins væri um fimm þúsund dollarar. Staksteinahöfundur sagði að þetta væri „í samræmi við frásagnir erlendra fjölmiðla um himinháar mútugreiðslur til landamæravarða í Rafah“. Hann benti líka á að mútugreiðslur væru ólöglegar og viðurlög við þeim sektir og allt að fimm ára fangelsi. „Það gæti því komið aðgerðasinnunum illa, því lögin eru afdráttarlaus, óháð því hvort einhverjum þyki málstaðurinn góður eða slæmur. Fyrir íslensk stjórnvöld er „ómöguleikinn“ augljós, þau geta ekki liðkað fyrir með mútugreiðslum til erlendra embættismanna.“

Kristín Eiríksdóttir sagði að Staksteinaskrifin væru „algjör afvegaleiðing og rugl“.“

Í fyrsta lagi er rétt að benda á að Staksteinar eru ekki ómerktur dálkur sem birtist í Morgunblaðinu. Þetta er ritstjórnardálkur sem er eðli málsins á ábyrgð ritstjóra blaðsins, þeirra Davíðs Oddssonar og Haraldar Johannessen.

Í öðru lagi vekur það athygli að hvorki stjórnandi Silfursins eða Brynjólfur virðast forvitin um frekari upplýsingar um í hvað kostnaðurinn fór. Þær segja að engum hafi verið mútað en tala þess í stað um einhver pappírsgjöld og óskilgreinda þjónustu.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 21. febrúar.