Það ætti engum að dyljast að það er mikið svigrúm til hagræðingar í rekstri ríkisins. Yfirleitt virðast stjórnvöld því miður trúa því að lausnin við útblæstri hins opinbera felist í auknum skattahækkunum. Nýlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu eru staðfesting á slíkum hugmyndum. Betur færi á að nýta sóknarfæri í tiltekt á útgjaldahliðinni og að hækka ekki skatta fyrr en slík tiltektarúrræði hafi verið fullnýtt.
Áform umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um sameiningar stofnana undir ráðuneytinu eru gott dæmi um slíka tiltekt á útgjaldahlið. Sameina á tíu stofnanir í þrjár og gert er ráð fyrir að minnsta kosti 650 milljóna króna hagræðingu á ári við sameininguna. Þá er einnig jákvætt að fyrir liggi frumvörp um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í eina stofnun, sem og um sameiningu Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs.
Einfalt, skilvirkt og hagkvæmt starfsumhverfi fyrirtækja skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni Íslands. Samtök atvinnulífsins hafa lengi bent á nytsemi sameininga enda má færa sterk rök fyrir sameiningu stofnana þegar um er að ræða svið atvinnulífsins þar sem virk samkeppni er þegar komin á.
Þetta er mikilvægt atriði. Hið opinbera hefur lengi verið beinn þátttakandi í íslensku atvinnulífi og spannar samkeppnisrekstur þess breitt svið – allt frá meðhöndlun úrgangs og til fjármálaþjónustu. Ef fyrirætlanir ráðherra eiga að ganga eftir þarf að tryggja að starfsumhverfi opinberra fyrirtækja í samkeppnisrekstri sé sambærilegt því sem gengur og gerist hjá fyrirtækjum á einkamarkaði. Huga þarf að því að raska ekki samkeppni, til dæmis með skattaundanþágum, hærri launum en á almennum markaði, niðurgreiðslum úr almannasjóðum eða beinum samningum án útboða svo fátt eitt sé nefnt. Opinberar stofnanir eiga ekki að vera undanskildar þessu.
Á undanförnum árum hefur ítrekað komið fram í niðurstöðum greininga og skýrslum starfshópa að verkefni eigi að samræma á milli stofnana og sameina þær ef þörf er talin á. Minni tvíverknaður og skörun verkefna leiðir til betri nýtingar á því takmarkaða fé sem varið er til eftirlits, minni reglubyrði fyrir atvinnulífið og skilvirkari framkvæmd eftirlits. Ein mikilvægasta kerfisbreytingin sem hægt er að ráðast í til að auka skilvirkni og draga úr reglubyrði er að endurskipuleggja starfsemi eftirlitsstofnana þannig að verkefni þeirra séu sameinuð og samþætt en með því má lágmarka tvíverknað og skörun verkefna, segir til dæmis í skýrslu vinnuhóps á vegum forsætisráðuneytisins um eftirlitsstofnanir sem birt var árið 2014.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stefnt verði að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu og kannaðir verði möguleikar á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem getur aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. „Meginmarkmiðið er að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.“ Þetta eru fyrirætlanir til fyrirmyndar og vonandi verða þær að veruleika. Þetta rímar einnig við sérstakan kafla í fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 um umbætur í starfsemi hins opinbera og verkefni sem snúa m.a. að því að veitt sé betri og einfaldari opinber þjónusta með auknum árangri fyrir samfélagið allt. Í kaflanum má finna sérstaka umfjöllun um skipulag hins opinbera og stofnanafjölda og viðleitni til þess að fara að tillögum Ríkisendurskoðunar til einföldunar á kerfinu. Mikil tækifæri felast í því að fækka og stækka stofnanir, einfalda starfsemi og þjónustu og veita hana með hagkvæmari og skilvirkari hætti. Litlar og fámennar stofnanir eru hvorki sjálfbærar né nægilega sterkar einingar og þess vegna skýtur skökku við að á sama tíma og einn ráðherra sameinar stofnanir sé annar ráðherra að koma á fót nýrri og fámennri stofnun sem heitir Mannréttindastofnun Íslands og hefur það hlutverk að efla og vernda mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins hvorki meira né minna. Loks getur fjárhagslegur ávinningur þess að sameina stofnanir verið umtalsverður og stór þáttur í því að nýta betur þá fjármuni sem hið opinbera hefur úr að spila.
Aukin skilvirkni ríkisstofnana er samfélaginu öllu til hagsbóta og því er mikilvægt að málið hljóti góðan framgang og að frumvarp verði samþykkt á síðari stigum. Best væri að gera það samhliða því að einfalda regluverk, fjarlægja séríslensk íþyngjandi lagaákvæði og gera enn frekari ráðstafanir til að auka skilvirkni stofnana. Það yrði okkur öllum til hagsbóta.
Höfundur er lögmaður á efnahags- og samkeppnishæfnisviði SA.