Það er ekki handboltaæði á Íslandi eins og oft áður á þessum árstíma. Það er hagræðingaræði. Íslendingar eyða síðkvöldum í að senda hagræðingartillögur inn á samráðsgátt stjórnvalda.

Nú hefur Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Visku – stéttarfélag sérfræðinga hjá hinu opinbera – og hans fólk í stéttarfélaginu, opinberað könnun sem sýnir að ríkisstarfsmenn eru ekki síður hagræðingaróðir en aðrir landsmenn.

En það sem vakti athygli hrafnanna við könnunina var að aðeins fjórðungur aðspurðra töldu sig sjá tækifæri til hagræðingar þegar kemur að starfsmannahaldi hins opinbera. Eins og fram kemur í tilkynningunni þá hefur „álag og undirmönnun stóraukist og því hafi þörf skapast fyrir nýráðningar á stofnunum.“ Hrafnarnir eru hræddir um að þetta sé nú ekki upplifun almennings en opinberum starfsmönnum hefur fjölgað um tugi prósent á undanförnum árum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. janúar 2025.