Frumhlaup Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóðsins Brúar í aðdraganda ársfundar Festi vekur upp margar áleitnar spurningar að mati hrafnanna.
Meginspurningin er fyrst og fremst: hagsmuni hverra töldu stjórnir lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar sig vera að verja þegar þær ákváðu að virða tillögur tilnefningarnefndarinnar að vettugi?
Varla voru það hagsmunir sjóðsfélaga? Ekki voru það hagsmunir hluthafa. Hröfnunum þykir augljóst að þarna hafi valdabrölt af gamla skólanum ráðið för ásamt persónulegri óvild gagnvart einum af þeim sem var tilnefndur til stjórnarsetu.
Það er grafalvarlegt að lífeyrissjóðir standi í slíku. Ekki batnar ásýndin þegar haft er í huga að hér er um að ræða lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. LSR sá ekki einu sinni sóma sinn í að veita Þórði Má fund um afstöðu sína, hvað þá að svara beiðni hans um fund.
Viðskiptablaðið óskaði eftir að að fá nánari skýringu á afstöðu þessara lífeyrissjóða á tilnefningu Þórðar Más Jóhannessonar. Spurt var hvaða hegðun hann á að hafa sýnt af sér sem rýrir traust hans og trúverðugleika. Jafnframt var spurt um hvort tekið væri tillit til þess við framfylgd hluthafastefnu sjóðanna þegar mál, sem köstuðu rýrð á traust og trúverðugleika frambjóðenda, eru felld niður eftir rannsókn lögreglu eða annars ákæruvalds.
Í svari LSR við fyrirspurn Viðskiptablaðsins vísaði sjóðurinn einfaldlega til eigendastefnunnar: „Ásýnd, orðspor, traust og trúverðugleiki eru sjálfstæð hæfisskilyrði óháð öðru. LSR mun ekki fjalla um persónuleg málefni einstakra frambjóðenda til stjórnar í þeim félögum sem sjóðurinn fjárfestir í,“ segir í svari LSR.
Hröfnunum þykir þetta forvitnilegt svar enda er ekki einu orði minnst á „ásýnd“ eða „orðspor“ í eigendastefnu LSR. Tilnefningarnefnd Festi sem starfar eftir ströngum reglum er gert að horfa til hæfni, reynslu og þekkingar með tilliti til leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá er henni gert að gæta þess að tillögurnar samræmist samþykktum félagsins. Ólíkt eigendastefnu LSR er talað um orðspor stjórnarmanna í samþykktum Festa. Þar segir:
„Stjórnarmenn teljast vera með gott orðspor ef engin haldbær gögn eða ástæður benda til annars. Við mat á góðu orðspori er litið til þess hvort stjórnarmenn hafi sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri. Við matið er einnig litið til háttsemi viðkomandi sem kynni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor félagsins ef opinber væri.“
Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu upplýsti Sigrún Ragna Ólafsdóttir formaður tilnefningarnefndar Festi á aðalfundinum að fulltrúi LSR hafi haft samband símleiðis við sig til að tilkynna um að stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs hefði ályktað á stjórnarfundi að skýrsla nefndarinnar hafi valdið vonbrigðum og að tilnefningarnefndin nýti ekki lengur trausts sjóðsins.
Vantraust á tilnefningarnefnd sem aðrir treysta
Auk Sigrúnar Rögnu sátu þeir Tryggvi Pálsson hagfræðingur og Ólafur Arinbjörn Sigurðsson lögmaður og meðeigandi Logos í tilnefningarrnefndinni. Allt saman flekklaust fólk sem nýtur virðingar fyrir störf sín. Enda fylgdu fáir LSR að málum þegar sjóðurinn greiddi gegn endurkjöri tveggja tilnefningarnefndarmanna á aðalfundinum.
Í stjórn LSR sitja fjórir stjórnarmenn sem eru tilnefndir af fjármálaráðherra og fjórir af verkalýðsfélögum opinberra starfsmanna. Allir stjórnarmenn Brúar tilheyra síðarnefnda hópnum.
Ríkislífeyrissjóðurinn beitti sér aftur á móti fyrir því að Guðjón Auðunsson fráfarandi forstjóri Reita kæmist í stjórn. Hann var ekki tilnefndur. Enda ljóst hvaða tortryggni það kann að skapa að fá fyrrverandi forstjóra stærsta leigusala Haga, helsta keppinaut Festi, á dagvörumarkaði í stjórn félagsins. Viðbrögð stjórnarformanns Haga við þeirri viðleitni segir meira en mörg orð um það. Rétt er að taka fram LSR og Brú eru einnig meðal fimm stærstu hluthafa Haga.
LSR og Brú hljóta að skýra mál sitt
Eftir stendur spurning hrafnanna: Hagsmuna hverra var LSR og Brú að gæta í þessu brölti öllu saman? Þess verður vafalaust ekki lengi að bíða eftir að Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri LSR og Guðrún Ögmundsdóttir formaður stjórnar sjóðsins stígia fram og útskýri mál sitt.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB skipaði sjálfa sig í stjórn LSR og hefur ekki verið feimin að tjá sig við fjölmiðla. Það hlýtur aðeins að vera tímaspursmál hvenær hún tjáir sig um málið. Sama má segja um Gerði Guðjónsdóttir framkvæmdastjóra Brúar og Auði Kjartansdóttir formann stjórnar. Þær ættu að svara spurningunni um hagsmuna hverra var verið að gæta? Það væri í anda þeirra góðu stjórnarhátta sem þetta fólk dyggðarskreytir sig mig með.
Þegar því hefur verið svarað má velta fyrir sér hvort það sé við hæfi að stjórnir stærstu lífeyrissjóða landsins – lífeyrissjóða opinberra starfsmanna - skuli telja tíma sínum vel varið að ræða um stjórnarkjör einstakra félaga og orðspor einstakra manna og fá fyrir það greitt sérstaklega sem nemur meðallaunum almenns verkamanns ofan á allt hitt.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.