Það er fátt sem hröfnunum þykir skemmtilegra en að hlusta á hlaðvörp opinberra stofnana og lögaðila. Þannig nutu þeir sín við að hlusta á hlaðvarp hagfræðideildar Landsbankans í vikunni en í því kynntu sérfræðingar ríkisbankans nýja þjóðhags- og verðbólguspá.
Una Jónsdóttir, Ari Skúlason, Gústaf Steingrímsson og Hildur Margrét Jóhannsdóttir fóru yfir það helsta í spánni í hlaðvarpinu. Það vakti athygli hrafnanna að Gústaf kvartaði yfir því að hagvöxtur fengi of mikið vægi í umræðunni því hann hafi lítil áhrif á það sem skiptir heimilin máli: Kaupmátt, verðlagsþróun og atvinnustig. Hröfnunum þykir merkilegt að sérfræðingur ríkisbankans telji ekkert orsakasamhengi vera á milli þessara þátta og velta fyrir sér hvort að viðskiptavinir bankans geti farið að leggja áherslu á greiðsluvilja fremur en greiðslugetu í lánaviðskiptum sínum.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 27. október.