Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins eru ákaflega uppteknir af því að reikna út ímyndaðan þjóðfélagslegan ávinning af inngripum eftirlitsins í íslenskt atvinnulíf. Týr bíður nú eftir því að sérfræðingar stofnunarinnar reikni út ávinninginn af ákvörðun um að framlengja rannsókn stofnunarinnar á sölu ljósleiðarakerfis Vestmannaeyjabæjar til Mílu fyrir tæplega 700 milljónir.
Eyjamenn stofnuðu Eygló árið 2022 þegar ljóst var að ekkert fjarskiptafélag sýndi því áhuga að byggja upp innviði fyrir háhraðanettengingar í bænum. Eins og segir í frétt Viðskiptablaðsins þá var það eðli málsins samkvæmt ekki sjálfstætt markmið bæjarfélagsins að standa í slíkum framkvæmdum.
Það hefur því verið bæjarbúum fagnaðarefni þegar Míla óskaði eftir viðræðum við bæinn um kaup á því kerfi sem Eygló var langt komið með að byggja upp. Kauptilboðið nam 690 milljónum króna sem samsvaraði útlögðum kostnaði við uppbyggingu kerfisins
Viðskiptablaðið hefur eftir Njáli Ragnarssyni, stjórnarformanni Eyglóar: „Auðvitað er rekstur á svona kerfi ekki hluti af lögbundnum hlutverkum sveitarfélaga. Þegar að stórt fjarskiptafyrirtæki eins og Míla loksins kemur og er tilbúið til þess að taka yfir þennan rekstur, og reka kerfið, þá náttúrulega vorum við ánægð með það. Þannig að já, það eru náttúrulega vonbrigði að málið skuli hafa farið svona.“
Það er ofar skilningi Týs hvernig kaup innviðafyrirtækisins Mílu á ljósleiðarakerfinu í Vestmannaeyjum gætu mögulega raskað jafnvægi á samkeppnismarkaði – hvorki þar né á meginlandinu. Honum hlakkar því mikið til að heyra röksemdir Páls Gunnars Pálssonar forstjóra Samkeppniseftirlitsins fyrir þeirri undarlegu ákvörðun að hafa ætlað að setja rannsókn á viðskiptunum í fasa 2.

Að lokum má svo benda á að kaupverðið hefði getað nýst bæjarbúum ágætlega – það hefði mátt nota til þess að reisa leikskóla svo eitthvað dæmi sé tekið. Vafalaust hefði slík fjárfesting ekki skilað minni þjóðhagslegum ábata en framlög til Samkeppniseftirlitsins.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 26. febrúar 2025.