Hrafnarnir stóðu í þeirri meiningu að Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra þreyttist ekki á að benda landsmönnum á hvernig heimilunum er að blæða út og hvernig „vaxtafíkillinn“ Ásgeir Jónsson, en það uppnefni hefur Ásthildur gefið seðlabankastjóranum, er að murka lífið úr landsmönnum.

Hrafnarnir sjá nú að þeir höfðu rangt fyrir sér. Ásthildur er greinilega orðin þreytt. Svo þreytt að hennar fyrsta embættisverk í ráðherrastól var að skreppa til Króatíu. Það gerir hún meðan að „vaxtafíkillinn“ gengur laus hér á landi og allsherjarverkfall kennara virðist vera óumflýjanlegt.

Töflufundur með ráðherra

Á meðan Ásthildur var Króatíu smellti hún sér á tvo leiki með íslenska landsliðinu í handbolta. Fram kemur í tilkynningu frá stjórnarráðinu að menntamálaráðherrann „fékk góða kynningu á undirbúningi íslenska liðsins fyrir heimsmeistaramótið hjá íþróttastjóra HSÍ fyrir fyrsta leikinn gegn Grænhöfðaeyjum.“ Samkvæmt heimildum hrafnanna ræddu íþróttastjórinn og ráðherrann um kosti og galla 6-0 varnarskipulags samanborið við fljótandi 5-1 vörn og hvaða tækifæri kunni að felast í að leika Kaíró með tveimur línumönnum.

Samkvæmt heimildum hrafnanna er þetta eitt af kerfunum sem ráðherra teiknaði upp fyrir handboltalandsliðið.
Samkvæmt heimildum hrafnanna er þetta eitt af kerfunum sem ráðherra teiknaði upp fyrir handboltalandsliðið.

Hrafnarnir telja öruggt að framlag Ásthildar hafi skipt sköpum fyrir leik liðsins í leikjunum tveimur. Í raun og veru verður jafnframt að teljast mikið hagræði felast í því að senda Ásthildi Lóu til Króatíu og samræmist það væntanlega metnaðarfullum áformum ríkisstjórnarinnar þegar að ráðdeild í ríkisrekstrinum.

Vantar upplýsingar um ferðakostnað

Hrafnarnir bíða nú spenntir eftir því að upplýsingar fáist frá ráðuneytinu um hvað handboltaferð ráðherrans kostaði skattgreiðendur og hversu margir úr ráðuneytinu voru með í för.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.