Í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir viku fjallaði Óðinn um mengunarskatt á íslensk skipafélög. Öllu heldur mengunarskatt á íslenskan almenning.

Einnig fjallaði Óðinn um Kyoto bókunina og kaupin á mengunarkvóta frá landi sem aðeins er með 18% endurnýjanlega orku.

Hér er upphafið af pistli Óðins. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Handónýtur utanríkisráðherra og sturlunin í stjórnarráðinu

Fyrir liggur boð frá Evrópusambandinu um að skattleggja eigi íslensk skipafélög til að minnka mengun frá og með næstu áramótum.

Samtök íslensk atvinnulífs sendu í lok júní bréf til utanríkisráðuneytisins um þá ósk að meðal annars yrði tekið tillit til þess að Ísland er langt úti í ballarhafi.

Ólíkt Evrópuríkjunum sem geta flutt vörur til dæmis með lestum, sem hugsanlega eru minna mengandi – þótt hafa beri í huga að orkuöflun Evrópuríkjanna er mjög mismunandi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra svaraði fyrir málið af hálfu vinstri ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi afsakaði hún það að bréfinu hefði ekki verið svarað á þá leið að fáir væru við vinnu í utanríkisráðuneytinu í júlí. Fréttasíða Morgunblaðsins, mbl. is, fjallaði um málið:

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ekki óeðlilegt að háannasumarleyfistími líði áður en svar berst við formlegum erindum.

Tilefnið er gagnrýni hagsmunasamtaka í atvinnulífinu á sinnuleysi stjórnvalda vegna athugasemda um reglur um kaup skipafélaga á kvóta á losunarheimildum. Segir Þórdís ráðuneyti mjög fáliðuð í júlí og að bréfið hafi kallað á samskipti við önnur ráðuneyti.

„Það þarf að stilla saman strengi, vinna ákveðna vinnu, taka afstöðu og annað slíkt. Það skiptir einnig máli, svo því sé haldið til haga, að ráðuneytið hafði átt fundi með hagaðilum bæði áður en bréfið barst og eftir að það barst.“

Alltaf skulu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins bregðast kjósendum sínum, skattgreiðendum og öðrum þeim sem skapa verðmæti í samfélaginu meðan þeir taka til varna fyrir starfsmenn ráðuneytanna. Sem eru nokkurn veginn nákvæmlega helmingi of margir.

***

Rugl í ráðherra

Í annan stað sagði hún að ekki væri rétt af íslenskum stjórnvöldum að óska eftir undan þágu vegna skattlagningarinnar:

Það eru engar sérstakar aðstæður sem kalla á það að ETS-kerfið á skipaflutninga eigi ekki við um Ísland umfram önnur lönd.

En það á eftir að fara með þetta mál í gegnum EES- ferlið og það á eftir að fara í viðeigandi ráðuneyti, þingið og svo eru ákveðin frágangsatriði sem við leysum á heimavettvangi.

En við höfum gert ráð fyrir, og gerum ráð fyrir, að ETS-kerfið verði tekið upp sem hluti af EES.

Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskipa.
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

Þetta er fullkomið rugl í utanríkisráðherranum. Rétt eins Óðinn nefndi hér að ofan og Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, benti réttilega á þegar hann sagði:

Það er viðurkennt að tilskipunin geti lagst þyngra á sum lönd en önnur og þar eru einmitt talin upp eyríki, fámenn ríki og lönd sem eru mjög háð skipaflutningum og eiga ekki kost á lestarflutningum eða fljótabátum.

Þetta á allt við um Ísland og þetta er búið að blasa við í dálítinn tíma.

***

Hækkar skatta en minnkar ekki mengun

Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn af þessu mengunarbrölti Evrópusambandsins fyrir íslensk skipafélög verði um 2,5 milljarðar króna.

Óðinn skilur ágætlega þá forsjárhyggjumenn sem vilja stýra hegðun fólks og fyrirtækja til að minnka mengun.

Vandinn við þessa dellutilskipun Evrópusambandsins er hins vegar sá – hvað Ísland varðar – að skipafélögin hafa ekki annan valkost en vélar sem knúnar eru af jarðefnaeldsneyti.

Við vonum öll sannarlega að tækninni fleygi fram, og reyndar er útlit fyrir að svo verði og skipafélögin geti keyrt skip sín á hreinu íslensku rafmagni.

Skatturinn mun ekki minnka mengun, heldur hækka vöruverð á Íslandi og skerða samkeppnishæfni íslenskra útflytjenda. Skatturinn mun þar með auka verðbólgu.

Sem ríkisstjórninni íslensku er mjög umhugað um að viðhalda ef marka má fjárlög 2023 og algert aðgerðarleysi við að stemma stigu við verðbólgudraugnum á þessu ári.