Vofa leikur nú ljósum logum um sali ríkisrekinna háskóla á Íslandi – vofa kulnunar. Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ og frambjóðandi til rektors, benti á í aðsendri grein á Vísi á dögunum að stór hluti þeirra sem sinna akademískri kennslu eigi á hættu á kulnun í starfi.

Það er einmitt þess vegna sem prófessorarnir eru að fara í verkfall í næstu vikum.

Meðallaun þeirra sem kenna í háskólum eru nú 1,2 milljónir á mánuði og þeir sem kenna við HÍ njóta auðvitað styttri vinnutíma, lengra orlofs, ríkari veikindaréttinda og starfsöryggis en venjulega fólkið á almenna vinnumarkaðnum. Hröfnunum dettur í hug að eitthvað annað kunni að skýra kulnuna en launakjörin.

En eins og kemur fram í grein Silju er verkfall háskólaprófessora ekkert gamanmál. Hún bendir á að ef til verkfalls kæmi gæti hvorki hún né aðrir prófessorar komið í viðtöl á Ríkisútvarpinu og öðrum miðlum. Það væri reiðarslag. En þó bendir hún á að vitaskuld yrðu veittar undanþágur sem varða þjóðaröryggi og almannavarnir.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. janúar 2025.