Í þar síðustu viku fjallaði Óðinn um fyrstu verk nýs umhverfis-, orku- og loftslags­ráðherra og verk forvera hans í embætti.

Í Viðskiptablaðinu sem kemur út á miðvikudag verður umfjöllun um Drekasvæðið og meðal annars fjallað um hugsanlega tekjur af olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu.

Samkvæmt henni myndi vinnsla á svæðinu skila ríkinu sem svarar tuttugu ára útgjöldum ríkisins. Það er ekki litlir peningar.

Hér á eftir er pistill Óðins sem birtist í blaðinu 19. mars.

Heiðursvinstrigrænn Guðlaugur Þór og Drekasvæðið

Jóhann Páll Jóhannsson fyrrum blaðamaður á DV og Stundinni er í dag umhverfis-, orku- og loftslags­ráðherra. Á þeim tæpu þremur mánuðum sem hann hefur verið í starfi hefur hann áorkað meiru í öllum málaflokkunum þremur en Guðlaugur Þór Þórðarsyni tókst á fjórum árum.

Óðinn vill þó auðvitað ekki gera lítið úr málunum þremur sem Guðlaugi tókst að koma í gegn. Hann lagði loftlagsskatta á flutningastarfsemi þar sem sérstaklega var gætt að því að benda ekki á sérstöðu Íslands, bæði í siglingum og flugi, fékk samþykkt lagafrumvarps um áfasta plasttappa og setti reglugerð um kynhlutlaus klósett.

***

Vitlausasta lagaframvarp lýðveldisins Íslands

Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni (bann við olíuleit).

Frá umhverfis- og orku- og loftslagsráðherra.

I. KAFLI

Breyting á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990.

  1. gr.

Við 2. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hugtakið kolvetni merkir jarðolía, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.

2. gr.

Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Kolvetnisleit er þó óheimil.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tóku margar undarlegar ákvarðanir í ríkisstjórnarsamstarfinu með Vinstri grænum og Framsóknarflokki. Einna vitlausust þeirra var tilraun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að banna með lögum leit af olíu og gasi í íslenskri lögsögu. Tilvitnað lagafrumvarp varð aldrei að lögum.

Þessi glórulausa hugmynd var partur af stefnu Guðlaugs Þórs að taka upp stefnu Vinstri grænna í orkumálum. Það var mikil blessun fyrir land og þjóð að losna við Vinstri græna af þingi en því miður sitjum við enn uppi með heiðursvinstrigrænan Guðlaug Þór á þingi.

Það var mikil huggun harmi gegn að sjálfstæðismönnum hafi lánast að kjósa Guðlaug Þór ekki til forystu í flokknum. En hann ber þó meginábyrðina á því að framtíðinni var frestað á síðasta landsfundi flokksins í byrjun mánaðarins.

***

Össur Skarphéðinsson og Steingrímur Sigfússon skála þann 4. janúar 2013, þegar veitt var leyfi til leitar og vinnslu kolefna á Drekasvæðinu

Austfirðingar benda á hið augljósa

Bæjarráð Fjarðabyggðar beindi því til stjórnvalda, í bókun á mánudag, að meta að nýju hagkvæmni olíuleitar á Drekasvæðinu. Rökin voru aðallega tvíþætt. Orkuskipti ganga hægar en vinstri grænum og Guðlaugi Þór dreymdi um á næturnar, og „breytt heimsmynd kallar á endurskoðun fyrri ákvarðana með tilliti til orku- og þjóðaröryggis.“

Bæjarráðið bendir einnig réttilega á í bókun sinni að Norðmenn auki nú olíu- og gasvinnslu. Forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre er formaður Samfylkingarinnar í Noregi, Det Norske Arbeiderparti.

***

Gríðarlegar tekjur norska ríkisins

Árið 2022 námu tekjur norska ríkisins af olíu- og gasvinnslu um 1.457 milljörðum norskra króna, sem jafngildir um 14.500 milljörðum íslenskra króna.

Þessar tekjur eru breytilegar milli ára og ráðast af mörgum þáttum, þá helst af heimsmarkaðsverði á olíu og gasi og framleiðslumagni.

Að grunni til hefur lagaramminn í kringum gjaldtöku norska ríkisins verið sá sami frá því að fyrsta leyfið til olíuvinnslu var veitt árið 1965.

***

Stefán Þór Eysteinsson er bæjarfulltrúi Fjarðarlistans. Sá átti stórleik í bókun á dögunum.

Flokksbróðirinn í Fjarðarlistanum

Flokksbróðir Støre í Fjarðarbyggð heitir Stefán Þór Eysteinsson. Hann er formaður bæjarráðsins fyrir hönd Fjarðarlistans og var með eigin bókun á mánudag.

„Mikilvægt er að Ísland tryggi orkuöryggi til framtíðar með stefnumótun sem tekur mið af sjálfbærum lausnum, orkuskiptum og langtímahagsmunum samfélagsins.“

Þrátt fyrir þessi firnasterku rök fyrir olíuleit á Drekasvæðinu sat Stefán Þór hjá í atkvæðagreiðslu um áskorunina til stjórnvalda. Já. Það eru fleiri en sjálfstæðismenn sem eiga jólasveina - eins og Guðlaug Þór.

***

Drekasvæðið virðist stútfullt

Rannsóknir á Drekasvæðinu gáfu vísbendingar um að olíu og gas kunni að vera að finna þar í vinnanlegu magni. Jafnvel gríðarlegu magni ef menn settu upp bjartsýnisgleraugun.

Fyrstu niðurstöður bentu til að magn vinnanlegrar olíu gæti verið að lágmarki um 20 milljón rúmmetrar, jafnvel á bilinu 30–70 milljón rúmmetrar. Síðar komu fram upplýsingar um að magn olíu á svæðinu gæti verið margfalt meira en áður var talið, með bæði stórar og meðalstórar olíulindir. ​

Ekki á dagskrá

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, þingmaður Miðflokksins, spurði Jóhann Pál í óundirbúningum fyrirspurnartíma á Alþingi 20. febrúar hvort „hvort hann [væri] tilbúinn að stuðla að því að rannsóknar- og leitarleyfi kolvetna verði gefin út, til að mynda fyrir Drekasvæðið, svo að taka megi upplýsta ákvörðun til framtíðar.“

Jóhann Páll svaraði neitandi.

„En stutta svarið er nei, það er ekki áherslumál hjá þessari ríkisstjórn að halda áfram olíuleit. Verkefnið er þvert á móti að halda áfram að fasa út jarðefnaeldsneyti eins og við höfum skuldbundið okkur til að gera, eins og nágrannaþjóðirnar og Evrópuþjóðirnar stefna að. Þetta er stóra verkefnið.

Ef við ætlum að halda áfram að fasa út jarðefnaeldsneyti þá getum við ekki um leið verið að leita og leita að meiri olíu og vinna og vinna meiri olíu. Þar fer ekki saman hljóð og mynd. Þannig að stutta svarið er nei, það er ekki á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn að gefa út rannsóknar- eða hvað þá vinnsluleyfi fyrir olíu í íslenskri lögsögu.“

Þetta er allt saman rétt hjá Jóhanni að við munum líklega fasa jarðefnaeldsneyti út. Vandinn er bara sá að það mun hið minnsta taka hundrað ár, ef ekki árhundruð. Og jafnvel aldrei. Ef ekki á að fórna gríðarlegum fjármunum á bál sem enginn veit hvort árangri skilar.

En hitt er enn mikilvægara. Aðrar þjóðir eru verr sett en við. Þær munu að öllum líkindum þurfa reiða sig á jarðefnaeldsneyti um ókomna tíð.

Ætlum við að láta misskilning Vinstri grænna og Guðlaugs Þórs koma í veg fyrir að sækja gríðarleg auðævi úr sjónum? Hvort sem það eru hvalir, olía eða gas?

Olíumálaráðherrarnir Össur og Steingrímur

Það var árið 2009 í iðnaðarráðherratíð Össurar Skarphéðinssonar sem íslensk stjórnvöld kynntu fyrst áform um að bjóða út olíuleit á Drekasvæðinu. Það var svo árið 2013 í ráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar sem fyrstu olíuvinnsluleyfunum var úthlutað.

Yfir fimm milljörðum hefur verið varið í rannsóknir á svæðinu og öll rök eru fyrir því að bjóða aftur út rannsóknarleyfi á svæðinu.

Óðinn spáir því að ef Jóhann Páll sér ljósið í olíu- og gasmálinu, eins og hann hefur gert í fjölmörgum málum undanfarið, þá ríkissjóður ekki aðeins fá tugi þúsunda milljarða króna í tekjur. Heldur muni Guðlaugur Þór hrökklast úr stjórnmálum.

Það er því til mikils að vinna.