Kínverski kommúnistaflokkurinn fylgist grannt með borgurum landsins og styðst meðal annars við fremur ógeðfellt einkunnarkerfi sem mælir „samfélagslega ábyrgð“ þegnanna.

Þeir fá stig fyrir að haga sér vel og vera innblásnir af anda alræðisflokksins í leik og starfi. Ef menn halda sér ekki á mottunni kemur það niður á aðgengi þeirra að lánsfjármagni og framgangi í starfi svo einhver dæmi séu tekin. Hvað um það? Krónan kynnti til sögunnar í síðustu viku Heillakörfuna svokölluðu. Það er sérstakt app sem „hjálpar“ viðskiptavinum að velja vörur sem stjórnendur Krónunnar telja „heillavænlegri kosti fyrir þig, samfélagið og umhverfið“. Með því geta viðskiptavinir Krónunnar unnið sér inn stig sem vafalaust mun nýtast þeim vel þegar fram í sækir.

Haft er eftir Guðrúnu Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, í fréttatilkynningu að Krónufólk viti ekki til þess að sambærilegt hvatningarkerfi sé að finna í erlendum stórmörkuðum. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort það hafi ekki hvarflað að aðstandendum Krónunnar að það kunni að vera góð ástæða fyrir því.

Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. maí 2024.