Fátt virðist geta komið í veg fyrir allsherjarverkfall kennara.

Viðtal við Ingu Rún Ólafsdóttir, formann samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í Morgunblaðinu í vikunni vakti athygli hrafnanna. Þar benti hún á að Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, og hans fólk í samninganefndinni hafni algjörlega hugmyndum um að laun kennara hækki við að kenna meira en þeir gera. Þeir vilji eingöngu hækka launin um tugi prósenta en halda öllu öðru í horfinu.

Það er afleitt enda hefur það komið á daginn að fá þróuð ríki verja jafn miklu fé í menntakerfið en Ísland en árangurinn af því starfi er ekkert sérstakur, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Á sama tíma og allt er í hnút í deilunni auglýsir Kennarasambandið að mikill skortur sé á kennurum og þar af leiðandi þurfi að hækka launin.

Þetta er ekki rétt. Það er nóg af kennurum en þeir eru að gera allt annað en að kenna. Þannig kom fram á menntaþingi sem haldið var í haust að stöðugildum deildarstjóra og millistjórnenda í skólum hafi fjölgað um 95% frá árinu 2016 og það séu fyrst og fremst kennarar sem hafi mannað þessar stöður.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 29. janúar 2025.