Reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, um að vörumerki skuli afmáð af umbúðum tóbaks og þær allar hafðar í sama ljóta litnum, hefur vakið furðulítil viðbrögð. Einhver hefði haldið að stjórnmálaflokkar, sem gefa sig út fyrir að standa vörð um eignarréttindi og athafnafrelsi, myndu nýta tækifærið í aðdraganda kosninga til að andmæla slíkri forræðishyggju.
Ástæðan fyrir viðbragðaleysinu er líklega að stjórnmálamenn óttast lýðheilsuriddarana, sem finnst í góðu lagi að ganga gegn stjórnarskrárvörðum réttindum ef það þjónar markmiðum málstaðarins.
Tóbak er varasamt og ekki skynsamlegt að neyta þess. Það er engu að síður lögleg vara. Það getur vissulega þjónað lýðheilsumarkmiðum að setja hömlur á sölu þess og markaðssetningu – þótt það sé að vísu vandséð þegar varan má ekki sjást í búðum, hverju það bætir við að setja hana í einsleitar umbúðir.
Slíkar takmarkanir á eignarrétti og atvinnufrelsi framleiðenda og seljenda tiltekinnar vöru eru hins vegar svo veigamikið inngrip í grundvallarréttindi að um það ætti Alþingi að fjalla með ýtarlegum hætti, í stað þess að setja það í sjálfsvald ráðherra. Þess vegna hefur Félag atvinnurekenda kvartað undan reglugerðinni til umboðsmanns Alþingis. FA hefur meðal annars vísað til fyrri álita umboðsmanns um „að nauðsynlegt sé að skýrt sé frá því gengið í lögum, hvaða kvaðir verði lagðar á borgana.“
Einhvers staðar þarf nefnilega að draga línuna í svona málum. Annars heldur hún bara áfram að færast til. Ef þetta fordæmi fær að standa, verður auðveldara fyrir næsta stjórnlynda heilbrigðisráðherra að takmarka með reglugerð tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi fleiri fyrirtækja, sem að hans mati framleiða eða selja vörur sem neytendur ættu að passa sig á. Við gætum fengið bjór í brúnum umbúðum, gos án vörumerkja eða skyldu til að láta allt nammi bragðast eins og tófú, í boði ráðherra.