Týr fékk í morgun fréttabréf frá fyrirtækinu Santé sem er rekið af Arnari Sigurðssyni og Elíasi Blöndal, vínkaupmönnunum úti á Granda. Þar kennir ýmissa grasa en mesta athygli Týs vakti svar fagráðs Santé við aðkallandi vangaveltum Herjólfs Guðmundssonar trésmiðs.
Með góðfúslegu leyfi birtir Viðskiptablaðið samskipti Herjólfs smiðs við fagráðið:
"Kæra fagráð.
Ég er í mesta basli með að finna út hvað ég á að kjósa af þeim bjóða sig fram til forseta. Mig varðar ekkert um þennan málskostrétt en vil vita hvort einhver af þessum svokölluðu frambjóðendum hafi eitthvað vit á víni og verði ekki þjóðinni til skammar með einhverjum fernuvínum í boðum.
Herjólfur Guðgeirsson,
trésmiður
Sæll Herjólfur.
Það vill einmitt svo til að þetta efni bar upp á nýlegum fundi fagráðsins sem sendi út spurningar þar að lútandi á alla framjóðendur sem eru með meira en 0,1% fylgi í skoðanakönnunum hjá Útvarpi Sögu.
Arnar Þór svaraði því til að hann kaupi engin vín sem framleidd séu í Evrópusambandinu eða tengist Orkupakka 3.
Katrín mun aldrei kaupa vín nema þau séu gerð í ríkisverksmiðjum. Þar sem þeim fer fækkandi er líklegast að flytja þurfi sérstaklega inn vín frá Norður-Kóreu fyrir vínkjallara embættisins.
Uppáhaldsvín Ásdísar Ránar eru Hello Kitty en ekki er vitað í hvaða efnaverksmiðju þau eru búin til. Vínin hafa þó fengist stopult hjá Nýju Vínbúðinni þegar hún er ekki innsigluð.
Halla orkuskortsstjóri segist ekki gera greinarmun á tegundum svo fremi að umbúðirnar séu úr léttgleri.
Jón Gnarr segir grjóthart að hann muni hvergi versla annarsstaðar heldur en í frelsinu hjá Santé. Vínkjallari embættisins sé eins og lélegur brandari.
Baldur Þórhallsson segist bara í sannleika sagt ekki muna hvar hann kaupir vín og sama segir Felix sem er líka í framboði.
Kveðja, fagráðið"
Týr er einn af föstum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.