Í kvöld var greint frá því að Heiða Björg Hilmisdóttir yrði borgarstjóri. Það er mikill happafengur fyrir hægri öflin í landinu, í ljósi þess að stutt er til kosninga, en um leið óskaplega dapurlegt fyrir borgarbúa.

Í síðustu viku fjallaði Óðinn um borgarmálin og sáttamanninn Guðlaug Þór Þórðarson.

Óðinn spáir þvi að Heiða Björg muni að minnsta kosti helminga fylgi Samfylkingarinnar á þeim rúmu fjórtán mánuðum sem eru til kosninga.

Hér má sjá fylgisþróun Samfylkingarinnar í borgarstjórn samkvæmt Gallup og kosningunum 2022. Óðinn telur það lýðræðislega skyldu Viðskiptablaðsins að gera könnun fljótlega aftur, og aftur, um fylgið í borginni.

Hér á eftir er upphafið á pistli Óðins frá því í síðustu viku.

Vindhaninn Heiða Björg og sáttamaðurinn Guðlaugur Þór

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig vel síðustu daga og ber af öðrum oddvitum. Það var rétt af henni að kanna samstarfsgrundvöll við framsóknarmenn, Viðreisn og Flokk fólksins.

Við getum þakkað Ingu Sæland fyrir það að nú er von á hreinum vinstri meirihluta í borginni. Ástæðan fyrir því að hún vill ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum er sú, að hennar sögn, að flokkurinn og Morgunblaðið hafa fjallað um styrkjamál Flokks fólksins.

Málefnalegra verður það varla – fyrir utan auðvitað að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert með málið að gera.

Það er hárrétt sem Arnar Þór Stefánsson lögmaður hefur bent á, að auðvitað ber fjármálaráðherra að fara fram á endurgreiðslu styrkja sem greiddir voru án þess að lagaskilyrði væru til staðar.

***

U-beygjur Samfylkingar

Samfylkingin hefur síðustu daga lýst því yfir að hún sé tilbúinn til að gefa eftir öll kreddumál sín til síðustu 10-15 ára.

Mál sem hafa aðallega snúist um að vera á móti skynsamlegri uppbyggingu í borginni, Sundabraut og byggð annars staðar en á þéttingareitum, til dæmis í Geldinganesi, svo eitthvað sé nefnt.

Heiða Björg Hilmisdóttir verðandi fyrrverandi oddviti Samfylkingarinnar hefur formlega tekið við af Össuri Skarphéðinssyni sem helsti vindhani íslenskra stjórnmála.

Það er útilokað að nokkur borgarfulltrúi Samfylkingar verði oddviti fyrir næstu kosningar, svo óskaplega slakir eru þeir.

Nú sér verkefnalaus Dagur B. Eggertsson væntanlega mjög eftir því að hafa sagt af sér borgarfulltrúaembættinu í Reykjavík. Fyrir aðeins hálfum mánuði. Án hans eru vinstri flokkarnir í borginni eins og hauslaus her.

***

Einstakt tækifæri

Nú hefur Hildur Björnsdóttir einstakt tækifæri til að verða óskorðaður leiðtogi í Reykjavíkurborg. Ekki bara meðal sjálfstæðismanna heldur allra Reykvíkinga.

Það er ljóst af könnun Gallup, þar sem 31,2% sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokksins, að það er jarðvegur fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sækja fram. Kosningabaráttan er hafin og hver dagur skiptir máli.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn 12. febrúar. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.