Þau tímamót urðu þann 26. febrúar að fyrsti dómur á Íslandi var kveðinn upp í máli er varðar milliverðlagningu. Dómurinn lýtur að starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. sem rekur kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal þar sem sóttir eru kalkþörungar úr sjó, þeir hreinsaðir og þurrkaðir. Félagið seldi nánast allt hráefnið til írsks móðurfélags síns og voru afurðirnar unnar frekar og seldar víðs vegar um heim. Ágreiningur félagsins og Skattsins snéri að því hvort verðið á hráefninu við sölu til móðurfélagsins væri eðlilegt verð og sambærilegt því sem ótengdir aðilar myndu ákveða sín á milli.

Félagið beitti kostnaðarálagningaraðferðinni (e. Cost Plus Method) við milliverðlagningu á viðskiptum sínum við móðurfélagið, þ.e., hráefnið var selt með ákveðnu álagi eða 50%. Til stuðnings á valinni aðferð lagði félagið fram samanburðargreiningu sem vísaði til samanburðar á fyrirtækjum með vegið meðaltal brúttóframlegðar á bilinu 4,8%-93,8%. Einnig vísaði félagið til samninga milli sín og móðurfélagsins til frekari stuðnings á viðskiptum sínum.

Af­staða Skattsins og Yfir­skatta­nefndar

Skatt­yfir­völd gagn­rýndu kostnaðar­grunninn sem álagið var lagt á. Félagið hafði undan­skilið ákveðna þætti beins og óbeins fram­leiðslu­kostnaðar, þ.e. launa­kostnað og af­skriftir fasta­fjár­muna, frá kostnaðar­grunni sínum.

Saman­burðar­greiningin sem lögð var fram til stuðnings við­skiptunum virtist hvorki inni­halda saman­burðar­hæf við­skipti né af­urðir. Einnig vísaði saman­burðar­greiningin til þess að leggja bæri . nettóálagningarað­ferð (e. Transactional Net Margin Met­hod) til grund­vallar í stað kostnaðarálagningarað­ferð sem félagið beitti. Það var einnig horft til þess að fram­legðar­bilið var frá 4,8%-93,8% sem náði yfir nánast öll fyrir­tæki óháð verðlagningu þeirra. Enginn marktækur ytri saman­burður lá fyrir til að meta mætti verðlagninguna.

Í úr­skurðum Skattsins og Yfir­skatta­nefndar var talið að samningskjör milli félagsins og írska móðurfélagsins væru ekki sam­bæri­leg við­skiptum ótengdra aðila á sam­bæri­legum markaði, þ.e. samningskjörin voru talin veru­lega frábrugðin því sem al­mennt gerist í slíkum við­skiptum.

Þar sem félagið notaði of lágan kostnaðar­grunn var sölu­verð hráefnanna til móðurfélagsins of lágt að mati Skattsins. Hagnaðar­hlut­fall félagsins, þ.e. hagnaður sem hlut­fall af tekjum af sölunni, hafi vegna þessa orðið mun lægra en ella og mun lægra en hjá írska móðurfélaginu.

Skatt­yfir­völd töldu til­ganginn með hinni af­brigði­legu verðlagningu vera að flytja hagnað frá Ís­landi til um­tals­vert lægri skatt­lagningar á Ír­landi. Dómurinn féllst á af­stöðu Skattsins og Yfir­skatta­nefndar enda var verðlagning félagsins aug­ljós­lega ekki í samræmi við milli­verðlagningar­reglur og skjölun þess veru­lega ábóta­vant.

Nýstár­leg beiting reglnanna

Þrátt fyrir að dómurinn hafi tekið undir af­stöðu Skattsins er ástæða til að staldra við þá nálgun sem hann tekur gagn­vart kröfum til sönnunarfærslu skatt­yfir­valda. Með dóminum er skapað hættu­legt for­dæmi sem dregur úr kröfum til sönnunarfærslu af hálfu Skattsins.

Sam­kvæmt héraðs­dóminum hvílir sönnunar­byrðin nánast al­farið á félögum þegar kemur að því að sýna fram á að við­skiptin upp­fylli arms­lengdar­regluna. Telji skatt­yfir­völd gögn félagsins ófullnægjandi, hafa þau hins vegar frjálsar hendur til að endur­ákvarða verðlagningu við­skiptanna, án þess að þurfa að styðjast við saman­burðargögn eða önnur viðmið sam­bæri­leg þeim sem skattaðilar sjálfir verða að leggja til grund­vallar.

Þessi nálgun stangast væntan­lega á við rannsóknar­reglu 10. gr. stjórnsýslu­laga, því meira íþyngjandi sem stjórn­valdsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur eru gerðar til stjórn­valds að ganga úr skugga um að upp­lýsingar sem búi að baki ákvörðun séu réttar. Auk þess er þetta í ósamræmi við fram­kvæmd annarra aðildarríkja OECD þar sem það er al­mennt skil­yrði að skatt­yfir­völd byggi endur­ákvarðanir á eigin út­tektum eða saman­burðargögnum, sem eru í eðli sínu sam­bæri­leg þeim sem skattaðilar sjálfir þurfa að leggja fram. Héraðs­dómurinn stað­festir að hér á landi sé ekki gerð sam­bæri­leg krafa á skatt­yfir­völd og þeim er í raun veitt svigrúm að endur­ákvarða verðlagningu við­skiptanna án þess að byggja á fullnægjandi gögnum við sína ákvörðun.

Milli­verðlagning undir auknu eftir­liti

Þessi dómur lýsir þeirri þróun vel sem er að eiga sér stað út um allan heim. Milli­verðlagning er tekin fastari tökum og er áherslu­at­riði í eftir­liti skatt­yfir­valda. Félagið sem um ræðir var ekki að sinna skjölunar­skyldu sinni, rökstuðningur fyrir verðlagningarað­ferðinni og saman­burðar­greining voru ekki fullnægjandi til að sýna framá að sölu­verð hráefnisins væri eðli­legt. Með hlið­sjón af þessum áherslum þurfa fyrir­tæki sem eiga við­skipti við tengda aðila yfir landa­mæri að huga að eftir­farandi at­riðum:

  • Vanda þarf til verka við gerð milli­verðlagningar­stefnu og mikilvægt að gerð sé vönduð greining á við­skiptunum. Það þarf að tryggja að valin sé að­ferð sem er við­eig­andi fyrir við­skiptin og að að­ferðin sé studd saman­burðar­hæfum gögnum.
  • Ef beitt er kostnaðarálagningarað­ferðinni, þarf að tryggja að kostnaðar­grunnur sé rétt reiknaður og taki til­lit til allra beinna og óbeinna kostnaðar­liða.
  • Það þarf að tryggja að saman­burðar­greining sé gerð á réttum for­sendum og að valin fyrir­tæki séu saman­burðar­hæf við viðkomandi fyrir­tæki.

Út­búa þarf fullnægjandi skjölun fyrir hvert og eitt rekstrarár sem ætti að vera til­búin þegar skatt­fram­tali er skilað þannig að þegar/ef skatturinn kallar eftir skjöluninni þá sé hægt að af­henda hana innan 45 daga lög­bundna frestsins.

Ís­lensk skatt­yfir­völd hafa aukið eftir­lit með milli­verðlagningu og eru til­búin að grípa til að­gerða ef fyrir­tæki upp­fylla ekki skjölunar­skyldu sína eða ef verðlagning er ekki rétt ákveðin og studd saman­burðar­hæfum gögnum. Skila­boðin úr þessum dómi eru skýr, fyrir­tæki þurfa að leggja áherslu á að út­búa vandaða skjölun tíman­lega og beita réttum að­ferðum við milli­verðlagningu og styðja við hana með fullnægjandi saman­burðar­hæfum greiningum.

Höfundar: Gréta Stefáns­dóttir, lög­fræðingur og Ása Kristín Óskars­dóttir, lög­maður, báðar hjá KPMG Law ehf.