Týr heyrðist Helga Vala Helgadóttir, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, vera með böggum hildar í morgunútvarpi Rásar 2. Ástæðan er þó ekki gengi Valsmanna í körfuboltanum. Nei augljóst var að Helgu mislíkar mjög hvernig Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fer með Dag B. Eggertsson stuðningsfulltrúa ríkisstjórnar Flokks Ingu Sæland, Samfylkingar og Viðreisnar.

Sem kunnugt er gekk Kristrún fram hjá Degi í vikunni þegar hún gerði Guðmund Ara Sigurjónsson, reynslulausan þingmann Samfylkingarinnar, að þingflokksformanni. En Helga sagði að fyrst að Degi væri ekki treyst fyrir þessu hlutverki væri hún sannfærð um að stuðningsfulltrúinn yrði gerður að formanni fjárlaganefndar.

Úr öskunni í eldinn

Væntanlega hrýs mörgum hugur við þá tilhugsun um að Dagur B. verði sá sem heldur endanlega á pyngjunni í ríkisstjórnarsamstarfinu þegar smiðshöggið er rekið á fjárlagagerðina. Týr getur aftur á móti hughreyst þá hina sömu.

Því er hvíslað að Tý að stjórnarflokkarnir hafi nú þegar komið sér saman um hver næsti formaður fjárlaganefndar verður. Það er enginn annar en Ragnar Þór Ingólfsson þingmaður Flokksins hennar Ingu.

Tý hlakkar því ákaflega mikið til vorsins að safnast saman á Austurvelli með Ragnari og Ásdísi Lóu Þórsdóttur og taka þátt í mótmælum þar sem að þau mótmæla sjálfum sér og embættisverkum sínum.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.