Týr hefur gaman af vandræðagangi Samfylkingarinnar í tengslum við vanhugsaðar tillögur flokksins í skattamálum. Samfylkingin boðar hækkun fjármagnstekjuskatts og segist á sama tíma ekki ætla að hækka skatta á vinnandi fólk.
Stefán Einar Stefánsson, þáttastjórnandi Spursmála, benti Víði Reynissyni, ríkisstarfsmanni og oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, á þessa þversögn. Fjöldi iðnlærðra á borð við smiði, hárgreiðslufólk, pípulagningamenn og aðra sérfræðinga er með rekstur í kringum sérfræðiþekkingu sína. Þetta er vinnandi fólk sem mun greiða hærri skatta eftir hækkun fjármagnstekjuskattsins.
Þórður Snær Júlíusson, frambjóðandi flokksins í Reykjavík, stökk þá Víði til varna á samfélagsmiðlinum X. Þar sagði hann að hækkunin væri réttlætanleg þar sem fjármagnstekjuskattur væri fyrst og fremst greiddur af tekju- og eignahæstu tíundunni. Með öðrum orðum: Það á að hækka skatta á fólk sem þér er illa við.
Hverjir eru annars í tekju- og eignahæstu tíundinni? Fólk sem er með 1,3 milljónir á mánuði annars vegar og þeir sem eiga 80 milljónir í hreina eign eða sem nemur lítilli blokkaríbúð í úthverfum Reykjavíkur. Sem sagt vinnandi fólk sem hefur náð að leggja fyrir á langri starfsævi.
Skemmtilegast þótti Tý þó þegar hagfræðingur hjá ASÍ stökk fram á ritvöllinn til þess að verja stefnu Samfylkingarinnar og færði fyrir því rök að samkvæmt félagatali Rafiðnaðarsambandsins væru sjálfstætt starfandi rafverktakar í raun og veru ekki til – í besta falli jafn sjaldgæf sjón og einhyrningar og Katanesdýrið. Hagfræðingurinn gáði ekki að því að rafverktakar hafa sín eigin samtök sem nefnast SART og í þeim er fjöldinn allur af sjálfstætt starfandi fólki í iðninni.
Staðreynd málsins er sú að Samfylkingin er að leggja til skattahækkun á vinnandi fólk þegar flokkurinn boðar hækkun á fjármagnstekjuskatti. Orðafimleikar um ímynduð ehf-göt breyta engu um þá staðreynd. Þessi hækkun er bara byrjunin á frekari hækkunum ef flokkurinn kemst til valda enda hefur hann ekkert annað til málanna að leggja.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. nóvember 2024.