Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem lögð var fram í vikunni sýnir svo ekki verður um villst að borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar slógu ryki í augu kjósenda í vor.

Þegar fjármálastjórn borgarinnar var gagnrýnd í kosningabaráttunni eftir afkomutölur fyrsta fjórðungs sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri  afkomuna staðfesta „ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum.“ Og að þetta allt saman væri „gott veganesti fyrir þá miklu uppbyggingu sem fram undan er.“

Nýja fjárhagsáætlunin staðfestir í raun að rekstur borgarinnar er í kalda kolum en gert er ráð fyrir 15 milljarða halla af rekstri borgarsjóðs í ár. Í tilkynningu með fjárhagsáætluninni er öllu öðru en óstjórn meirihlutans kennt um hina afleitu stöðu. Meðal blóraböggla er heimsfaraldur og innrás Rússa í Úkraínu og engu orði minnst á þá staðreynd að meirihlutinn notaði lágvaxtaumhverfi undanfarinna ára til að stórauka verðtryggðar skuldir borgarinnar.

Til þess að bregðast við ástandinu hefur meirihlutinn boðað aðhald og ráðningarbann. Borgin hyggst ekki ráða starfsmenn nema brýna nauðsyn beri til. Hrafnarnir velta fyrir sér hvaða aðrar forsendur hafi verið á mannaráðningum meirihlutans fram til þessa.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 27. október.