Árið 1939 kom út bókin Hin mikla arfleifð Íslands. Höfundurinn var enski pýramídagrúskarinn Adam Rutherford.
Í stuttu máli strengdi Rutherford ímyndaða loftlínu frá Keopspýramídanum að JL-húsinu og dró þá ályktun að komandi kynslóðir Íslendinga ættu eitthvað sérstakt erindi við umheiminn og þá sérstaklega hvað frið og spekt varðar. Áðurnefnd loftlína og sú staðreynd að Ísland er ekki með her og flestir voru læsir á þeim tíma voru helstu rök Englendingsins.
Kenningar Rutherfords nutu um tíma talsverðrar hylli hér á landi. Eigi að síður bentu skarpskyggnir menn á borð við Stein Steinarr skáld á að hérna væri um að ræða „draum smælingjans“ eða þá „Messíasarkomplex sálsjúks manns“.
Ríflega hálfri öld síðar birtist Ástþór nokkur Magnússon á sjónarsviðið. Hann bauð sig fram til forseta fyrst árið 1996 og erindi hans var að koma á friði í heiminum. Kenningar þær sem hann lagði fram í bókinni Virkjum Bessastaði rímuðu ágætlega við dellu Rutherfords þó að fæstir hafi tengt þetta saman.
Þjóðin hló.
Síðan þá hefur Ástþór margoft boðið sig fram. Það sem vekur sérstaka athygli Týs er að boðskapur hans hefur smám saman aðlagast meginstraumnum í íslenskri pólitík. Flestir forsetaframbjóðendur í kosningunni á laugardag töluðu einmitt á þann veg að Íslendingar hefðu eitthvað sérstakt til málanna að leggja þegar kemur að helstu átökum samtímans.
Stríðsátökin við botn Miðjarðarhafs og innrás Rússa í frjálst og fullvalda ríki gætu auðveldlega leyst ef friðarröddin úr norðri fengi að heyrast.
Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti lýðveldisins, talar fyrir þessu. Hún telur að íslenska ríkið eigi ekki að leggja lóð sín á vogarskálarnar til að útvega Úkraínumönnum það sem þá vanhagar um til að berjast við rússneska innrásarliðið: skotfæri og vopn. Nei, hún telur ásamt öðrum frambjóðendum þessa ömurlegu innrás eiga að vera vettvang til þess að efla íslenska nýsköpun!
Sem betur fer hefur Alþingi mótað þá stefnu að standa þétt að baki Úkraínumönnum og skipað þar með Íslandi í flokk með bandaþjóðum okkar. Í þeirra hópi eru ríki á borð við Svíþjóð sem sá hag sínum best borgið í hlutleysinu og Finnar sem af sögulegum ástæðum höfðu fáa kosti að velja í öryggis- og varnarmálum. Þessar þjóðir eru nú komnar í NATO með yfirgnæfandi stuðningi þegna sinna.
Týr telur brýnt að nýkjörinn forseti geri sér grein fyrir þessu.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.