Þjóðaríþrótt Íslendinga er hvorki glíma né handknattleikur. Og ekki er þjóðaríþróttin heldur höfrungahlaup eins og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hélt fram í ágætri grein fyrir nokkrum árum.

Þjóðaríþrótt Íslendinga er hvorki glíma né handknattleikur. Og ekki er þjóðaríþróttin heldur höfrungahlaup eins og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hélt fram í ágætri grein fyrir nokkrum árum.

Nei, að mati Týs er hin eina og sanna þjóðaríþrótt Íslendinga vanmat kostnaðar opinberra framkvæmda.

Þar er Ríkið fremst í flokki og hefur mörg afrek unnið. Ótal dæmi eru um margfaldan kostnað miðað við kostnaðaráætlun framkvæmda. Þannig má sannarlega líta á kostnaðaráætlanir hins opinbera fremur sem listgrein en vísindi svo vísað sé til frægra ummæla.

***

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kynnti á dögunum að til stæði að reisa nýtt fangelsi í stað Litla-Hrauns. Fram kom í kynningunni að ráðgert er að nýtt fangelsi muni kosta 7,5 milljarða. Ekki hefur komið fram hversu mörg rými eigi að vera í nýja fangelsinu en um 100 fangar eru vistaðir á Litla Hrauni.

Fyrir ríflega áratug reistu norsk stjórnvöld fangelsi fyrir 250 fanga. Kostnaðurinn nam tæpum 34 milljörðum íslenskra króna á verðlagi ársins 2010. Síðan þá hefur verðlag í Noregi hækkað um fimmtung.

***

Tý sýnist að miðað við reynslu Norðmanna muni nýtt fangelsi kosta ríkið á bilinu 30-40 milljarða miðað við að það hýsi 200-250 fanga. Það er að segja ef það verður að norrænni fyrirmynd hvað aðbúnað varðar. Kostnaðurinn yrði aðeins lægri ákveði ríkið að tjalda til einnar nætur og mæta ekki auknum fólksfjölda með fjölgun fangarýma. Íbúar í Noregi eru um 4,5 milljónir og fangar um 3.000. Miðað við það er þörf á 200-250 rýmum í fangelsi fyrir karlmenn.

Af þessu að dæma uppfyllir kostnaðaráætlun dómsmálaráðherra sömu listrænu viðmið og finna var í kostnaðaráætluninni sem fylgdi Samgöngusáttmálanum.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. október 2023.