Fyrir nokkrum árum voru uppi fáheyrðar aðstæður í íslensku efnahagslífi. Viðskiptajöfnuður var hagstæður og hafði verið um áraskeið, verðlag var stöðugt og vextir í sögulegu lágmarki. Þetta var traustur grundvöllur kröftugs hagvaxtar sem landsmenn nutu. Þessi efnahagslegi stöðugleiki gerði það að verkum að heimilin kusu frekar að fjármagna fasteignaviðskipti með óverðtryggðum lánum

í stað verðtryggðra. Með þeirri þróun varð vaxtatæki Seðlabankans skilvirkara.

Nú hefur taflið snúist við. Verðbólga er þrálát, viðskiptajöfnuðurinn er orðinn að halla, gengið hefur gefið eftir og þetta hefur leitt til þess að Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti hratt og örugglega undanfarin misseri. Þær kjaraviðræður sem standa nú yfir marka ákveðnar krossgötur í þessum efnum.

Skynsamlegir kjarasamningar hvort sem þeir verða til skemmri tíma eða lengri geta skipt sköpum í að stýra hagkerfinu á ný í átt að þeim stöðugleika sem einkenndi tímabilið fram að þessu ári. Átök á vinnumarkaði og samningar um launahækkanir án innistæðu munu hins vegar festa núverandi ástand í sessi til frambúðar.

Því miður bendir flest til þess að verkalýðshreyfingin kjósi að fara síðari leiðina. Kröfur hennar um launahækkanir sem nema tugum prósenta eru ekki í neinum tengslum við þann efnahagsveruleika sem nú er uppi. Verði að þeim gengið er það ávísun á áframhaldandi verðbólgu og enn frekari vaxtahækkanir Seðlabankans. Enda hefur Seðlabankinn enga aðra kosti vegna lögbundinna skyldna hans.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt með skýrum hætti að fórnarkostnaður innistæðulausra kjarasamninga muni endurspeglast í enn hærri vöxtum. Þeir sem hafa lágmarks skilning á lögmálum auðs og eklu vita þetta. Þeir vita einnig að þarna er ekki um hótanir hjá seðlabankastjóra að ræða heldur áminning hans um virkni peningamálastefnu seðlabanka með verðbólgumarkmið.

Vaxtaþróunin á næstu árum skiptir sköpum. Ekki síst fyrir þann stóra hóp sem tók óverðtryggð fasteignalán til þriggja eða fimm ára þegar vaxtarstigið var hvað lægst. Samkvæmt Seðlabankanum nema útistandandi óverðtryggð íbúðalán sem koma til vaxtaendurskoðunar á árunum 2023 og 2024 rúmum 340 milljörðum króna, þar af tæpum 190 milljörðum á seinni helmingi árs 2024. Aðrir 250 milljarðar munu svo koma til endurskoðunar árið 2025. Binditími þeirra lána rennur út á næstu árum.

Miðað við núverandi vaxtarstig munu þessi heimili standa frammi fyrir tíu milljörðum í auknar vaxtagreiðslur þegar binditími þessara lána rennur út. Verði gerð kjarasamninga til þess að vextir hækki enn frekar verður aukning vaxtakostnaðar heimila eðli málsins samkvæmt enn meiri. Í síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans segir orðrétt:

Að öðru óbreyttu munu heimilin sem bera þessar skuldir þurfa að taka á sig aukna greiðslubyrði þegar kemur að vaxtaendurskoðun ellegar grípa til ráðstafana, þar sem sá möguleiki er fyrir hendi, til að minnka greiðslubyrði, svo sem með lánalengingu eða annarri skilmálabreytingu. Þetta gæti leitt til þess að aukinn fjöldi heimila kjósi að færa sig yfir í verðtryggð lán, enda er greiðslubyrði slíkra lána lægri á fyrri hluta lánstíma en á sambærilegum óverðtryggðum lánum.“

Það skýtur skökku við ef verkalýðsforysta sem hefur barist gegn verðtryggingu hagi kjarabaráttu sinni með þeim hætti að heimilin neyðist til þess að færa sig á ný í slík lán. Reyndar er sú þróun nú þegar hafin. Eini möguleikinn til þess að vinda ofan af henni er að vaxtaumhverfið verði skaplegt þegar binditími ofangreindra lána rennur út. Hóflegir kjarasamningar sem taka við af efnahagsástandinu er forsenda þess.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, hafa talað digurbarkalega um að þeir ætli að sækja hverja krónu sem heimilin hafa misst í vaxtagreiðslur vegna peningastefnunnar að undanförnu til atvinnurekenda í kjarasamningunum. Það vilja þeir gera með gerð kjarasamninga sem munu leiða til enn frekari vaxtahækkana. Ágætt væri að þeir svari spurningunni um hvert þeir ætla að sækja krónurnar sem heimilin munu missa úr hendi vegna aukinnar vaxtabyrði þegar binditími ofangreindra lán rennur sitt skeið.

Það er ákaflega mikilvægt að vel takist til við gerð þeirra kjarasamninga sem nú eru lausir. Það skiptir miklu fyrir hina raunverulegu hagsmuni heimilanna að það takist.