Enn ein skrautfjöðrin prýðir nú hatt hagfræðiprófessorsins Þorvalds Gylfasonar sem nú er farinn að gera sig gildandi á fasteignamarkaði.

Þannig greindi Viðskiptablaðið nýverið frá 370 milljóna króna sölu Söngskólans í Reykjavík á fasteign sinni á Laufásvegi 49-51, einnig þekkt sem Sturluhallir. Þorvaldur, sem er eins og alþjóð veit söngelskur maður, situr í stjórn söngskólans.

Þá rákust hrafnarnir á það að Þorvaldur hefði snemma á árinu fallið frá forkaupsrétti sínum á rishæð á Melhaga í Vesturbæ. Þess má til gamans geta að kaupandinn í umræddum viðskiptum er sambýliskona Guðmundar Hrafns Arngrímssonar, formanns Samtaka leigjenda, og má því segja að Þorvaldur hafi óbeint hjálpað formanninum að losna af leigumarkaðnum.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.