Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, er fyrirferðarmikill í fjöl­miðlum. Segja má að hann sé með svo gott sem vikulegt innlit í fréttatíma ljósvakamiðlanna þar sem hann tjáir sig um málefni leigjenda og stöðuna á fasteignamarkaðnum.

Í síðustu viku kynntu stjórnvöld nýjar aðgerðir vegna stöðunnar á fasteignamarkaðnum. Stjórnvöld stefna að uppbyggingu á 2.800 hagkvæmum leigu­íbúðum fyrir tekjulága hópa ­fyrir árið 2026 og á sama tíma var kynnt reglugerðarbreyting um útvíkkun viðmiða á hlutdeildarlánum.

Af þessu tilefni kallaði fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar Guðmund Hrafn í viðtal. Þar lét hann vaða á súðum og sagði aðgerðir ríkisstjórnar­innar með öllu gagnslausar. Guð­mundur sagði eftirfarandi:

„Svo megum við ekki gleyma því að hlutdeildarlánin þarf að greiða til baka miðað við þáverandi markaðsverð sem verður eftir tíu ár. Sem þýðir að ef fasteignaverð hækkar með sama hraða eins og það hefur gert þá munu þessi lán tvöfaldast að upphæð.“

Og enn fremur:

„Leigjendur munu þurfa að leggja til hliðar 250 þúsund krónur á mánuði ofan í að greiða af hefðbundnu fasteignaláni til þess að geta borgað þessi hlutdeildarlán til baka. Mér er til efs að það finnist nokkur leigjandi sem getur lagt svo mikið til ­hliðar.“

Þessi ummæli vöktu athygli á samfélagsmiðlum, enda endurspegla þau eftirtektarvert þekkingarleysi formannsins. Eins og flestir ættu að vita virka hlutdeildarlán ekki með þeim hætti sem Guðmundur ­lýsir. Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir um ­hlutdeildarlán að það sé veitt til að þess að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup. Í stuttu máli er gengið út frá því að kaupandi leggi 5% kaupverðs í útborgun og taki lán fyrir 75% af heildarupphæðinni. HMS veitir svo hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs. Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni en lántaki endurgreiðir lánið þegar hann selur eignina eða við lok lánstíma. Þannig að það er beinlínis rangt sem Guðmundur heldur fram að sá sem tekur hlutdeildarlán þurfi að leggja til hliðar háar upphæðir til að geta borgað lánið til baka. Það greiðist til baka vaxtalaust þegar eignin er seld og ef fasteignaverð hækkar á lánstímanum ­hagnast bæði lántaki og lánveitandi af því.

Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum að fréttastofan sendi út svona grundvallarmisskilning án þess að það hvarfli að fréttamanni að spyrja viðmælanda sinn frekar út í það.

***

Skipunartími Loftslagsráðs rennur út í haust og af því tilefni hefur ráðið skilað af sér lokaniðurstöðu starfs síðustu fjögurra ára. Í stuttu máli er hún að hér sé allt í kaldakolum og stjórnvöld eigi lýsa yfir neyðar­ástandi vegna loftslagsmála.

Af þessu tilefni var Halldór Þorgeirsson, formaður ráðsins, í viðtali í Speglinum í Ríkisútvarpinu á föstudag. Ánægjulegt var að fréttamaðurinn spurði Halldór út í hvað fælist í þeirri aðgerð að lýsa yfir neyðarástandi.

Svör Halldórs voru býsna merkileg. Hann sagði að með því að lýsa yfir neyðarástandi yrði komið á sólarhringsvakt loftslagsmála og svigrúm yrði til þess að grípa fyrr inn í ­málin. Þetta vekur spurningar um hvað nákvæmlega eigi að grípa inn í. Ekki stóð á svörum frá Halldóri. Hann tók dæmi um að verktakar á Íslandi treystu sér ekki til að uppfylla Evrópukröfur um losun af þungavinnuvélum á byggingarstað. Með neyðarástandi væri hægt að hringja í þessa verktaka öllum tíma sólar­hrings og spyrja hvað væri hægt að gera til að leysa málið. Halldór bætti svo við að fyrirmynd væri að finna í framferði íslenskra stjórnvalda meðan heimsfaraldurinn stóð yfir.

Fjölmiðlarýnir óskar eftir frekari umræðu um þessar hugmyndir Halldórs og velkist ekki í vafa um að ekki séu allir sammála um gildi þeirra.

Þetta er hluti úr Fjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.