Kröftugur viðsnúningur er hafinn á rekstri Sýnar. Stjórnendur hafa markvisst unnið að aukinni skilvirkni á árinu, stöðugildum hefur fækkað um 70 og starfslokasamningar verið gerðir við framkvæmdastjóra og millistjórnendur. Fækkun stöðugilda þvert á starfseiningar mun að öllum líkindum skila um 800 milljóna króna sparnaði frá fyrra ári. Áfram er unnið að niðurskurði og minnkun fjárfestinga í innviðum og erlendum sýningaréttum. Sérstaklega hafa fjárfestar horft til aukinnar samvinnu Sýnar og Nova á sviði innviðauppbyggingar sem felur í sér umtalsverðan rekstrarbata fyrir Sýn.

Samhliða viðsnúningi í rekstri á þriðja ársfjórðungi, munu allt að 1100 milljónir króna koma til greiðslu vegna eignasölu, þ.e. af sölu Ljósleiðarans (lokagreiðsla 900 mkr.) og erlendrar starfsemi upplýsingatæknifyrirtækisins Endor. Þetta eru óneitanlega jákvæðar fréttir fyrir hluthafa Sýnar sem geta loks átt von á glaðningi frá stjórnendum fyrirtækisins. Þegar tilkynnt var um sölu Ljósleiðarans á síðasta ári, kom skýrt fram í máli stjórnenda að fyrirhugað væri að skila söluhagnaði til hluthafa. Bókfærður hagnaður vegna sölunnar er 2,5 milljarðar króna og lokagreiðslan berst fyrirtækinu á næstu dögum.

Tímabært er að stjórnendur upplýsi hvernig hagnaði verði skilað til hluthafa og hvenær ráðist verði í endurkaup á eigin hlutum. Stjórn fyrirtækisins óskaði eftir heimild til kaupa á 10% eigin hluta á síðasta aðalfundi og gildir samþykktin til mars 2025. Um er að ræða tæplega þriðjung af markaðsvirði Sýnar og því mikið hagsmunamál fyrir hluthafa að stjórnendur standi við yfirlýsingar sínar. Miðað við markaðsvirði Sýnar í dag munu endurkaupin aðeins kosta um 800 milljónir króna. Hægt væri að skila afgangi hagnaðarins með arðgreiðslu í mars 2025, þegar viðsnúningurinn er vel á veg kominn og sjóðsstaða fyrirtækisins aftur orðin sterk.

Kröftugur viðsnúningur er hafinn á rekstri Sýnar. Stjórnendur hafa markvisst unnið að aukinni skilvirkni á árinu, stöðugildum hefur fækkað um 70 og starfslokasamningar verið gerðir við framkvæmdastjóra og millistjórnendur. Fækkun stöðugilda þvert á starfseiningar mun að öllum líkindum skila um 800 milljóna króna sparnaði frá fyrra ári. Áfram er unnið að niðurskurði og minnkun fjárfestinga í innviðum og erlendum sýningaréttum. Sérstaklega hafa fjárfestar horft til aukinnar samvinnu Sýnar og Nova á sviði innviðauppbyggingar sem felur í sér umtalsverðan rekstrarbata fyrir Sýn.

Samhliða viðsnúningi í rekstri á þriðja ársfjórðungi, munu allt að 1100 milljónir króna koma til greiðslu vegna eignasölu, þ.e. af sölu Ljósleiðarans (lokagreiðsla 900 mkr.) og erlendrar starfsemi upplýsingatæknifyrirtækisins Endor. Þetta eru óneitanlega jákvæðar fréttir fyrir hluthafa Sýnar sem geta loks átt von á glaðningi frá stjórnendum fyrirtækisins. Þegar tilkynnt var um sölu Ljósleiðarans á síðasta ári, kom skýrt fram í máli stjórnenda að fyrirhugað væri að skila söluhagnaði til hluthafa. Bókfærður hagnaður vegna sölunnar er 2,5 milljarðar króna og lokagreiðslan berst fyrirtækinu á næstu dögum.

Tímabært er að stjórnendur upplýsi hvernig hagnaði verði skilað til hluthafa og hvenær ráðist verði í endurkaup á eigin hlutum. Stjórn fyrirtækisins óskaði eftir heimild til kaupa á 10% eigin hluta á síðasta aðalfundi og gildir samþykktin til mars 2025. Um er að ræða tæplega þriðjung af markaðsvirði Sýnar og því mikið hagsmunamál fyrir hluthafa að stjórnendur standi við yfirlýsingar sínar. Miðað við markaðsvirði Sýnar í dag munu endurkaupin aðeins kosta um 800 milljónir króna. Hægt væri að skila afgangi hagnaðarins með arðgreiðslu í mars 2025, þegar viðsnúningurinn er vel á veg kominn og sjóðsstaða fyrirtækisins aftur orðin sterk.

Vandamál Sýnar

Fjárfestahópar sem leiða stjórn Sýnar virðast hafa það eina markmið að skera stöðugt niður kostnað í þeirri von að arðsemi verði ásættanleg einn góðan veðurdag og virði fyrirtækisins endurspegli verðmæti undirliggjandi eigna. Í það minnsta hefur stjórn Sýn ekki miðlað neinni fjárfestasögu til markaðsaðila eftir að sölu vefmiðla og útvarpsstöðva var slegið á frest í apríl síðastliðnum. Þrátt fyrir mikinn niðurskurð sem staðið hefur yfir nánast linnulaust frá því hóparnir tóku við stjórnartaumum fyrir um tveimur árum síðan, hafa markaðsaðilar sent skýr skilaboð. Virði Sýnar hefur ríflega helmingast og engin verðmæti verið sköpuð fyrir hluthafa.

Ég hef áður bent á hið augljósa. Viðskiptamódel Sýnar er komið á endastöð og stjórnendur njóta ekki trausts markaðsaðila, sem væri nauðsynlegt ef fyrirtækið fyrirhugaði frekari vöxt. Nánast engin samlegð er á milli tveggja stærstu rekstrareininga Sýnar; annars vegar vefmiðla og útvarps og hins vegar Vodafone. Íslensk fjarskiptafyrirtæki hafa fjárfest myndarlega í innviðum og nýrri tækni á undanförnum árum en ólíkt því sem við sjáum víðast hvar í Evrópu, hefur fyrirtækjunum ekki tekist nægjanlega vel að umbreyta þeim kostnaði í auknar tekjur. Það er því deginum ljósara að Vodafone, Nova og Síminn þurfa að geta „böndlað“ vörum og þjónustu á breiðari grunni til að vaxa og auka arðsemi.

Stjórn Sýnar hóf söluferli á vefmiðlum og útvarpsstöðvum haustið 2023 sem var síðan slegið á frest með tilkynningu í apríl. Ekkert var upplýst um ástæðu fyrirhugaðrar sölu eða hvað stjórn fyrirtækisins hugðist gera við fjármunina. Þegar söluferlinu var frestað var heldur ekkert tilkynnt um hvað tæki við og hvernig ætti að skapa verðmæti fyrir hluthafa. Í þessu kristallast vandamál Sýnar. Hluthafahóparnir eru reynslulitlir í verðmætasköpun á hlutabréfamarkaði og öll upplýsingagjöf er í besta falli óskýr og klaufaleg. Segja má að Sýn hafi lagt af stað í illa ígrundað söluferli á fjórum fótum við slæmar markaðsaðstæður og á endanum var ljóst að ekki var hægt að slíta miðlana frá annarri starfsemi, þrátt fyrir að kaupandi hafi verið reiðubúinn að greiða sjö milljarða króna fyrir miðlana. Stjórnendur hafa þó unnið góða heimavinnu á þessu ári og ráðist í nauðsynlegar skipulagsbreytingar og niðurskurð. Arðsemi samstæðunnar hefur tekið miklum stakkaskiptum, auglýsingatekjur hafa vaxið meira en búist var við og með lækkandi vöxtum verða markaðsaðstæður hagfelldari fyrir eignasölu. Ég geri ráð fyrir því að enn sé full samstaða meðal stærstu hluthafa og meirihluta stjórnar að ráðast í eignasölu.

Með eignasölu og sameiningum yrði verðmætum vörumerkjum Sýnar komið í hendur stærri fyrirtækja sem hafa meiri reynslu og burði til að sækja fram og veita aukna þjónustu til viðskiptavina og skapa tækifæri fyrir starfsfólk. Ekki er ólíklegt að hluthafar Sýnar hefðu áhuga á að eignast skráð hlutabréf í yfirtökufélögum, stæði það til boða. Í júní skrifaði ég pistil í Morgunblaðið þar sem ég útlistaði í fimm skrefum, hvernig hægt væri að þrefalda virði Sýnar á næstu 12 mánuðum. Á sama tíma og hlutabréf Sýnar hafa hríðfallið í verði er engu líkara en stjórnarmenn og lykilstjórnendur hafi farið í kafbát og legið þar á miklu dýpi. Fjárfestafundum hefur fækkað og einu skilaboðin til markaðsaðila er áframhaldandi niðurskurður, þrátt fyrir að það hafi hingað til engu skilað fyrir hluthafa. Mjög erfitt hefur verið að átta sig á því hvernig stjórnendur sjá fyrir sér að skapa verðmæti fyrir hluthafa og miðla trúverðugri fjárfestasögu til markaðsaðila.

Síminn kaupi vefmiðla og útvarp

Vefmiðlar og útvarpsstöðvar Sýnar smellpassa við nýtt tekjusvið Símans sem stofnað var eftir kaup á Billboard og fleiri skiltafyrirtækjum í upphafi árs. Fyrirtækið hefur góða stöðu í sölu birtinga á auglýsingaskilti og ljóst að með samruna við visir.is, Bylgjuna, FM957, X-ið og Ja.is skapast tækifæri til að þjónusta viðskiptavini á breiðari grunni. Jafnframt er mikilvægt fyrir Símann að ná samkomulagi við Sýn um sýningarrétt á völdum leikjum í enska boltanum til að verja áskriftargrunn sinn. Sýn hefur ákveðið „leverage“ í þeim viðskiptum þar sem ekkert samkomulag hefur verið gert eða handsalað, eftir því sem ég kemst næst. Ég skora á stjórnir fyrirtækjanna að hefja formlegt samtal um kaup Símans á vefmiðlum og útvarpsstöðvum.

Sýn hefur ekki upplýst sérstaklega um rekstrarhagnað vefmiðla og útvarpsstöðva en ég tel að hagnaðurinn (EBITDA) verði 650-700 milljónir króna á þessu ári. Með alþingis- og sveitastjórnarkosningar á næsta leiti og áframhaldandi vöxt í auglýsingatekjum er líklegt að virði rekstursins sé um eða yfir átta milljarðar króna, svipað og markaðsvirði Sýnar í kauphöll. Viðskipti Símans með skiltafyrirtæki byggðu á sambærilegum kennitölum og hægt er að sjá fyrir sér umtalsverð samlegðartækifæri, gangi samruni eftir. Síminn gæti þá boðið viðskiptavinum skiltafyrirtækja auglýsingar á breiðari grunni og Sýn getur skilað fjármunum til hluthafa og lækkað skuldir.

Hvað verður um Vodafone?

Vodafone er öflugt alþjóðlegt vörumerki með sterka stöðu á íslenskum fjarskiptamarkaði en þarf að geta „böndlað“ vörum og þjónustu á breiðari grunni. Ég hef áður sagt að ég telji að rekstur Stöðvar 2 eigi heima utan Sýnar og að þriðji aðili annist viðskipti og endursölu með sýningarrétti og framleiði innlent dagskrárefni. Sjónvarpsreksturinn á að mínu mati fyrst og fremst að snúast um gæða-framleiðslu á innlendu efni og íþróttaútsendingar. Vinda þarf ofan af dýrum samningum um erlenda sýningarrétti enda erfitt að etja kappi við alþjóðlega risa á því sviði. Ég sé fyrir mér að Vodafone geri langtímasamning við þriðja aðila sem kaupi rekstur Stöðvar 2 og einblíni á sölu áskrifta sem skilar fyrirtækinu um 4,5 milljörðum króna í tekjur á ári, samhliða fjarskiptaþjónustu. Mikil verðmæti er í vörumerki Stöðvar 2 Sport og sala til þriðja aðila gegn langtímasamningi, getur skilað vænum ávinningi fyrir hluthafa Sýnar.

Ég tel aðeins tímaspursmál hvenær öflug fyrirtæki eins og Festi og Hagar horfi til fjarskipta- og öryggisþjónustufyrirtækja til að breikka þjónustuframboð sitt enn frekar. Vörumerki Vodafone, Securitas og Öryggismiðstöðvarinnar eru rótgróin og viðskiptavinir þeirra ekki eins kvikir og þeir sem versla matvöru, bensín, raftæki eða lyf, til að mynda. Ólíklegt er að Samkeppniseftirlitið myndi heimila samruna Símans við Festi eða Haga vegna ráðandi stöðu þeirra á markaði og fjárfestar horfa frekar til Vodafone í mögulegum sameiningarpælingum. Að mínu mati er það meira umhugsunarefni hvenær Festi og Hagar sækja fram á þessu sviði, en hvort af því verði. Stjórn Festi er líklega komin lengst í skoðun á fjárfestingamöguleikum á þessu sviði.

Samkaup – Vodafone – Heimkaup – Orkan – Prís - Lyfjaver

Nú styttist í formlegan samruna Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar, þar sem Skel fjárfestingafélag mun fara með 47,5% eignarhlut. Stjórnendur í Skel hafa upplýst að fyrirhugað sé að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað innan 18 mánaða. Viðskiptamódel Skel virðist að mestu leyti hafa gengið út á að tikka í sömu boxin og Hagar og Festi á sviði matvöru, orku og lyfja. Ég sé gullið tækifæri fyrir Skel að „hugsa út fyrir kassann“ ef svo má segja og vera á undan Högum og Festi í því að sameina fjarskipta- eða öryggisþjónustufyrirtæki inn í sinn rekstur.

Þar sem ég er meðal stærri hluthafa í bæði Sýn og Skel, horfi ég sérstaklega til sameiningar Samkaupa, Heimkaupa, Orkunnar og annarra vörumerkja í eigu Heimkaupa; Lyfjavers, Prís og Löðurs, við Vodafone. Þar skapast mikil tækifæri til að einfalda heimilisbókhald landsmanna og lækka rekstrarkostnað. Kjarninn í slíku viðskiptamódeli væri þjónusta og vörur sem heimilin nýta einu sinni í viku eða oftar og má þar nefna: farsímaþjónustu, heimatengingar, sjónvarps- og afþreyingarefni, matvörur, lyf og heilsuvörur og orka. „The sky is the limit“ í því hvernig hægt væri að bjóða vörur og þjónustu á svo breiðum grunni.

Fyrrgreind fyrirtæki hafa öll einhvers konar vildarklúbba og með Vodafone væru sameinuð félög með beina viðskiptatengingu við að minnsta kosti 150.000 einstaklinga í gegnum vildarklúbbakerfi. Nettó, sem er í eigu Samkaupa, hefur til að mynda um 80.000 vildarklúbbsmeðlimi sem safna svokölluðum „app-krónum“. Ég ímynda mér að helstu markaðsmenn landsins sjái sömu tækifæri og ég í því hvernig væri hægt að skapa sérstöðu slíkrar samstæðu sem yrði frábrugðin rótgrónum og frekar þunglamalegum vörumerkjum Haga og Festi.

---

Höfundur er búsettur í Sviss og rekur eigið ráðgjafafyrirtæki, Aviva Communication, og sinnir fjárfestingum í verðbréfum og fasteignum. Hann og tengdir aðilar eru í hópi stærri hluthafa í Skel fjárfestingafélagi og Sýn.