Fyrsti hluthafafundur Íslandsbanka eftir að ríkið fór úr eigendahópnum fór fram á mánudag. Tugþúsundir Íslendinga eru í hluthafahópi bankans og segja má að helsta niðurstaða fundarins sé sú að yfirgnæfandi meirihluti þeirra hafnar skoðunum Bolla Héðinssonar og Vilhjálms Bjarnasonar
Bolli skrifaði grein á Vísi í aðdraganda fundarins þar sem hann hvatti lífeyrissjóði og aðra hluthafa bankans til að hafna tillögu stjórnar um starfskjarastefnu bankans. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort engum öðrum finnist undarlegt að stjórnarmaður í Seðlabankanum, sem annast fjármálaeftirlit hér á landi, beiti sér með þessum hætti – en það er önnur saga.
Skemmst er frá því að segja að starfskjarastefnan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða. Þá var ályktunartillaga Vilhjálms um vanhæfi á hendur Stefáni Sigurðssyni stjórnarmanni felld með 99,76% atkvæða. Ástæðan fyrir tillögu Vilhjálms er tölvupóstur sem Stefán skrifaði sem starfsmaður bankans fyrir tæpum tveimur áratugum, ogStefán bað Vilhjálm afsökunar á árið 2010.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. júlí 2025.