Þegar fráfarandi ríkisstjórn var slitið og boðað var til kosninga þótti mörgum spennandi tilhugsun að fá snarpa baráttu. Lýðræðisveislan, sem margir vilja kalla, átti þá ekki að vera eins og löng og leiðinleg fermingarveisla, heldur fremur eins og heljarinnar áramótapartí.

Þetta byrjaði hreint ágætlega og það virtist mikill lýðræðisþorsti í landsmönnum. Allir voru að hlusta og allir voru að horfa – á allt. Það var samt eins og gestir hafi sötrað heldur fljótt á of sterkri vínbollunni. Þegar þrítugasta og sjöunda pallborðinu var rúllað af stað, með sama fólkinu og sömu spurningunum, var eiginlega eins og þjóðin vildi helst slökkva ljósin, skrölta heim og sofa úr sér ölæðið. Þetta var komið gott.

En á meðan þjóðin fékk loksins hvíld og svaf úr sér timburmenn, voru formenn flokkanna dregnir í gegnum enn eina þeytivindu pallborða, úrvinda og vansvefta. Það var eiginlega átakanlegt að sjá stjórnmálaleiðtogana berjast við að halda sér vakandi í enn einu pallspjallinu þar sem farið var yfir úrslit kosninganna. Maður velti einfaldlega fyrir sér hverju væri mögulega ósvarað eftir maraþonið.

En það er kannski lengi von á einni pælingu. Ég á reyndar nokkrar brennandi í viðbót.

Hvernig stendur á því að það tekur skemmri tíma að telja atkvæði úr Suðurkjördæmi, sem nær nánast yfir þvert landið, en í Suðvesturkjördæmi sem hringar sig í kringum Reykjavík?

Er ekki áhugavert að þeir tveir flokkar sem vildu banna fiskeldi í sjó eru ekki lengur á þingi?

Hvað er klukkan nákvæmlega þegar nóttin hættir að vera ung?

Hvað fer Birgir Ármannsson að gera?

Eru allir núna með á hreinu að veiðigjaldið er 33% af afkomu fiskveiða?

Verða Bogi og Ólafur aldrei þreyttir hvor á öðrum?

Er það almennt álitinn góður tími til að fara í sleik í mynd þegar formaðurinn þinn er í viðtali á RÚV?

Væri möguleiki að gera þetta næst í aðeins betra veðri?

Og hvernig er það: Er Samúel Örn inni?