Björn Brynjúlfur Björnsson hefur verið að stimpla sig inn sem nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Á dögunum birti ráðið áhugaverða úttekt á efnahagslegum áhrifum þeirra þingmála sem voru samþykkt á vorþingi. Það var ekki falleg lesning en meðal þeirra mála sem sérfræðingar Viðskiptaráðs gagnrýndu réttilega voru ný húsaleigulög sem eru til þess fallin að draga markvisst úr framboði leiguhúsnæðis og ýmsar aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga á borð við að niðurgreiða skólamáltíðir vel stæðra foreldra og veita þeim vaxtastuðning.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra brást illa við þessari gagnrýni og svaraði henni í grein í Morgunblaðinu. Efnislega snerist svarið um að það væri ekkert að marka þessa gagnrýni af því að þarna væri um „nýfrjálshyggju að ræða.“ Hröfnunum þótti Björn Brynjúlfur svara því ágætlega þegar hann sagði að það „hjálpar engum að markmiðin séu göfug ef áhrifin eru öfug.“
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 17. júlí 2024.