Hrafnarnir sögðu í síðustu viku stuttlega frá Grænfánaverkefni Landverndar, sem kennt er í ýmsum grunn- og framhaldsskólum, undir fyrirsögninni „Pólitísk innræting og grænir fánar“. Það sem hrafnarnir ráku sig á var verkefni sem fólst í því að lesa greinina Grænu byltinguna eftir Gunnar Hólmstein Ársælsson, sem birtist upphaflega í Stundinni. Var nemendum gert að svara af hverju Sjálfstæðisflokkurinn léti umhverfismál sig ekki varða. Þetta þótti hröfnunum í besta falli sérkennileg nálgun.
Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, tók þetta til sín og svarað hröfnunum í vikunni í grein sem birt var hér á vefsíðunni undir fyrirsögninni „Ráðvilltir spörfuglar".
Sagði hún að nemendur ættu meðal annars að mynda sér skoðun á því „af hverju ákveðinn pistlahöfundur kemst að þeirri niðurstöðu meðal annars að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki staðið vel að umhverfismálum, sem er líklega það sem fer fyrir brjóst spörfuglanna. Nemendurnir eiga því að mynda sér sjálfstæða skoðun, en ekki lepja upp hrátt það sem pistlahöfundur segir“.
Auður Anna segir sem sagt hrafnana misskilja verkefnið og „rugla saman annars vegar hvatningu til nemenda um að mynda sér eigin skoðun og spyrja gagnrýninna spurninga og hins vegar pólitískri innrætingu.“
Hrafnarnir eru ekki að misskilja neitt. Þeir eru vel meðvitaðir um gildi gagnrýninnar hugsunar og er það nákvæmlega ástæðan fyrir því að hrafnarnir bentu og þetta atriði í verkefni Landverndar.
Hvers vegna studdu Vinstri græn byggingu kísilmálmverksmiðju við Húsvík og sjókvíaeldi á Vestfjörðum?
Í grein Gunnars Hólmsteins segir m.a.: „Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn, sem hingað til hefur ekki látið umhverfismál sig miklu varða, heldur eiginlega frekar hitt, og hefur hann stutt dyggilega við stóriðju og efnahagskerfi þar sem losun er mikil, t.d. í sjávarútvegi (þó hún hafi minnkað þar)."
Þessi setning er gildishlaðin og skoðanamótandi fyrir ungmenni nema þau hafi einhvern samanburð. Er Sjálfstæðisflokkurinn ólíkur öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum þegar kemur að umhverfismálum? Þessi spurning væri fín þjálfun í gagnrýnni hugsun.
Einungis einn íslenskur stjórnmálaflokkur kennir sig beinlínis við umhverfismál en það eru auðvitað Vinstri Græn. Hvers vegna studdu Vinstri græn byggingu kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsvík og sjókvíaeldi á Vestfjörðum? Þessi spurning myndi efla gagnrýna hugsun og vekja upp áhugaverðar umræður um íslenska kjördæmapólitík og hvernig hún getur trompað helsta stefnumál stjórnmálaflokks.
Ótrúleg „staðreynd"
Við þetta má svo bæta að í grein sinni segir Auður Anna að Ísland noti árlega jafnmikið af kolum og Indland. Segir hún ástæðuna vera gríðarlega notkun stóriðju, álvera og kísilmálmverksmiðja á kolum.
Þetta þótti hröfnunum ótrúleg „staðreynd" og flettu því upp kolanotkun þjóða á síðunni worldometers. Þar sést að kolanotkun á Íslandi er minni en á Indlandi hvort heldur er miðað við notkun samfélagsins í heild eða á hvern íbúa. Síðan má alveg geta þess að kolin í t.d. Elkem eru viðarkol, eða með öðrum orðum ónýtt timbur sem afhent er Sorpu, en ekki indversk brúnkol. En þessi staðreynd skiptir kannski engu máli eða hvað?
Huginn og muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.