Eftirspurn raforku hérlendis vex að líkindum um 6,5 TWst fram til 2035, en núverandi orkunotkun nemur um 21 TWst á ári. Á allra næstu árum eykst framboð lítið og orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja gæti verið í hættu 2024-2028. Eftir það verður ný orkuvinnsla Landsvirkjunar vonandi farin að skila sínu, með Búrfellslundi, Hvammsvirkjun og stækkun Þeistareykjastöðvar. Mikilvægt er að önnur orkufyrirtæki vinni einnig að aukinni orkuvinnslu.

Eftirspurn raforku hérlendis vex að líkindum um 6,5 TWst fram til 2035, en núverandi orkunotkun nemur um 21 TWst á ári. Á allra næstu árum eykst framboð lítið og orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja gæti verið í hættu 2024-2028. Eftir það verður ný orkuvinnsla Landsvirkjunar vonandi farin að skila sínu, með Búrfellslundi, Hvammsvirkjun og stækkun Þeistareykjastöðvar. Mikilvægt er að önnur orkufyrirtæki vinni einnig að aukinni orkuvinnslu.

Við hjá Landsvirkjun höfum áhyggjur af því að heimilum og smærri fyrirtækjum sé ekki tryggð nægjanleg orka þegar eftirspurnin vex hratt.

Fordæmi fyrir hraðri uppbyggingu

Árið 2035 gerum við ráð fyrir að 4 TWst hafi bæst við orkuvinnsluna vegna orkuskipta, almennur vöxtur í samfélaginu kalli á 1 TWst og til nýrra og núverandi stórnotenda renni 1,5 TWst umfram það sem nú er. Til að mæta eftirspurninni þurfum við að bæta við hálfri TWst á ári. Það getum við gert, ef við stillum saman strengi. Árin 2010-2020 tók Landsvirkjun þrjár nýjar virkjanir í notkun: Búðarháls, Búrfell II og Þeistareykjavirkjun, samtals með 2 TWst orkuvinnslugetu. Við höfum því fordæmi fyrir hraðri uppbyggingu og getum ráðist í hana aftur.

Landsvirkjun hefði getað hafist handa við Hvammsvirkjun og Búrfellslund fyrir tveimur árum, ef ekki hefðu komið til miklar tafir í leyfisveitingaferlinu. Ef það hefði gengið eftir værum við ekki í þessari þröngu stöðu.

Bútum orkuskiptin niður

Orkuskiptin eru mjög til umræðu og vert að líta sérstaklega á hversu mikla orku þarf til þeirra. Hér á landi lúta orkuskipti fyrst og fremst að samgöngum. Við búum svo vel að hafa fyrir löngu rafvætt heimili og fyrirtæki og nýtum jarðvarma m.a. til húshitunar. Talið er að um 16 TWst þurfi fyrir full orkuskipti samgangna og fallast þá sumum hendur.

Í því tilliti er mikilvægt að hafa í huga að orkuskiptin munu eiga sér stað yfir nokkra áratugi. Mestur þungi þeirra kemur fram þegar orkuskiptalausnir verða fýsilegar í alþjóðaflugi enda er það stærsti notandi jarðefnaeldsneytis á Íslandi. Á því sviði er enn langt í land og um endanlega orkuþörf þess ríkir mikil óvissa. Orkuþörf orkuskiptanna í heild er því afturþung og óviss og ekki tímabært að taka ákvarðanir sem snúa að síðari hluta þeirrar vegferðar.

Ef litið er þess í stað til næstu ára, t.d. til ársins 2035, er hægt að stilla upp sennilegri sviðsmynd varðandi framvindu orkuskipta.

Sviðsmyndin til 2035

Á landi eru orkuskipti þegar hafin líkt og fjölgun rafbíla sannar. Á næstu árum heldur sú rafvæðing áfram og sérstaklega upp úr 2030 þegar bann við nýskráningu bensín- og díselbíla tekur gildi. Það hentar illa að rafvæða stærri vinnutæki og þunga flutningabíla sem ferðast langar vegalengdir og þar verður vetni nýtt í stað rafmagns. Þá mun metan einnig nýtast þar sem það á við.

Á hafi verður líf- og rafeldsneyti nýtt til að knýja fiski- og flutningaskip. Rafeldsneyti verður framleitt á Íslandi í töluverðu magni og til viðbótar verður flutt inn lífeldsneyti.

Flugsamgöngur, fyrst og fremst alþjóðaflug, munu nýta innflutt lífeldsneyti og að minni hluta innflutt rafeldsneyti, til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins um íblöndun og draga þannig úr losun.

Til að knýja orkuskiptin til 2035 þarf um 4 TWst af árlegri raforkuvinnslu, eins og áður er nefnt og einnig þarf að flytja inn líf- og rafeldsneyti. Það er viðráðanleg raforkuþörf sem orkufyrirtæki Íslands geta mætt fyrir 2035 í viðunandi sátt við samfélagið.

Orkuskiptin gerast ekki af sjálfu sér og þurfa stuðning stjórnvalda og vilja atvinnulífsins. Stjórnvöld þurfa að skapa öfluga efnahagslega hvata til orkuskipta, skilvirkari stjórnsýslu og vinna orkuskipta- og rafeldsneytisáætlun. Atvinnulífið þarf að vera reiðubúið til að taka áhættu og leggja út í umtalsverðan kostnað þar sem orkuskiptalausnir eru flestar óhagkvæmar miðað við bruna jarðefnaeldsneytis.

Loftslagið má engan tíma missa og nauðsynlegt að við tökum stór skref í orkuskiptum.

Jónas Hlynur er sérfræðingur í viðskiptagreiningu og þróun markaða hjá Landsvirkjun og Sveinbjörn er forstöðumaður verkefnaþróunar.