Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra var gestur Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi síðasta sunnudag. Til umræðu voru hin umdeildu áform ríkisstjórnarinnar um að tvöfalda veiðigjöld með því að tengja þau annars vegar við verð á íslenskum fiskmörkuðum og hins vegar verð á norskum fiskmörkuðum.

Talsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa varað við því að útfærslan á hækkuninni muni grafa undan samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og meðal annars grafa undan landvinnslu og þeirri verðmætasköpun sem veiðar og vinnsla hefur til þess skilað í þjóðarbúið.

Hanna Katrín vísaði þessu á bug í viðtalinu og sagði það vera órökrétt ef sjávarútvegsfyrirtæki dragi úr landvinnslu eftir hækkun veiðigjalda. Hún sagði:  „Það er órökrétt miðað við tölurnar sem liggja fyrir miðað við arðsemina af þessari grein, miðað við hagnaðinn, miðað við fjárfestingu, miðað við uppbyggingu eigin fjár í þessari grein og miðað við fjárfestingar í óskylduðum rekstri.“

Ráðherrann rökstuddi ekki þessa skoðun sína frekar. En er það órökrétt að ætla að fyrirhuguð hækkun veiðigjalda grafi undan fiskvinnslunni á landi? Eftir því sem næst verður komist hefur Hanna Katrín ekki rekið sjávarútvegsfyrirtæki. Það hefur hins vegar Pétur Pálsson framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík gert.

Hann gerði grein fyrir áhrifum hækkunar veiðigjaldanna með greinargóðum hætti í aðsendri grein í Morgunblaðinu á föstudaginn í síðustu viku. Þar segir:

Nú ber svo við að stjórn­völd horfa til kaup­getu er­lendu fyr­ir­tækj­anna þegar viðmið á skatt­stofni út­gerða á Íslandi er ákveðið. Verði sú raun­in verða skatt­ar og gjöld á ís­lensk­ar út­gerðir grund­völluð á getu niður­greiddr­ar fisk­vinnslu í Evr­ópu, en ekki á þeim verðmæt­um sem verða til á Íslandi. Hætt­an við þessa nálg­un stjórn­valda er þríþætt. Í fyrsta lagi: ef ein­göngu verður um skatta­hækk­un upp á millj­arðatug að ræða dreg­ur það úr sam­keppn­is­hæfn­inni, stuðlar að samþjöpp­un og minnk­ar fjár­fest­ing­ar­getu fyr­ir­tækj­anna. Í öðru lagi: ef fisk­vinnsl­unni er gert með lög­um að greiða það sem er­lend­ar niður­greidd­ar fisk­vinnsl­ur geta borgað fer öll af­kom­an yfir á út­gerðina og hvat­inn til fjár­fest­inga í fisk­vinnslu í landi hverf­ur. Í þriðja lagi: ef þetta leiðir til norsku leiðar­inn­ar og sam­teng­ing veiða og vinnslu verður rof­in fáum við norsku af­leiðing­arn­ar með í kaup­bæti og ís­lensk fisk­vinnsla eins og við þekkj­um hana heyr­ir sög­unni til.

At­vinnu­líf í Grinda­vík hef­ur alla tíð byggst upp á sam­teng­ingu veiða og vinnslu. Til viðbót­ar við alþjóðleg­an óró­leika og tolla­stríð slást Grind­vík­ing­ar nú við eld­gos og jarðhrær­ing­ar og hef­ur sú bar­átta gengið upp hingað til. Það sjá hins veg­ar all­ir að eitt þúsund og fimm hundruð millj­óna veiðigjöld munu þyngja þá bar­áttu veru­lega. Verði hins veg­ar rof á milli veiða og vinnslu verður fátt um svör.”

Hér er ekki um hótanir að ræða. Þarna er grandvar maður með áratugareynslu af rekstri sjávarútvegsfyrirtækis að benda á hvaða áhrif hækkunin mun hafa á rekstrarákvarðanir þeirra sem stýra íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

***

Ungum lögfræðingi hefur verið skotið upp á stjörnuhimin íslenskra fjölmiðla. Það er að segja ef heimsmyndin afmarkast við lestur á DV og hlustun á Ríkisútvarpið.

Sá heitir Jónas Már Torfason. DV hampaði honum á dögunum fyrir skrif hans á samfélagsmiðlum þar sem hann úthúðaði Morgunblaðinu fyrir að vera áróðursmiðill án trúverðugleika og Sjálfstæðisflokknum fyrir að glata erindi sínu. Þó svo að maðurinn sé flestum ókunnugur þótti þetta fréttnæmt þar sem að hann er víst fyrrverandi blaðamaður á Mogga og meðlimur Sjálfstæðisflokksins.

Gott og vel. Jónas dúkkaði svo upp í síðdegisútvarpi Rásar 2 á miðvikudag. Tilefnið var að hann hafði skrifað aðra færslu á Facebook-síðu sína um áform ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda. Þótti þáttargerðarmönnum síðdegisútvarpsins skrifin sæta svo miklum tíðindum og eiga það mikið erindi við þjóðina að hann var kallaður umsvifalaust til viðtals.

Þegar viðtalið var kynnt gat hlustendum dottið í hug að þessi ungi maður væri kominn með lausn á deilu þeirra sem hafa áhyggjur af áhrifum hækkunar veiðigjalda á verðmætasköpun í efnahagskerfinu og þeirra sem vilja hækka þau mest. Það var ekki reyndin. Færslan var frekar tilþrifalítill endurómur af stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og það sama má segja um viðtalið við hann í síðdegisútvarpinu, kryddað með dylgjum um að allur arður af veiðum og vinnslu hafi verið notaður til þess að fjárfesta í óskyldum rekstri – eitthvað sem á við engin rök að styðjast.

Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem að Jónas Már er félagi í Samfylkingunni og mamma hans, Alma Möller, gegnir ráðherraembætti í ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þar með er Jóhann í svokölluðum áhættuhópi vegna stjórnmálatengsla samkvæmt ríkjandi lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Það er stórfurðulegt að þáttastjórnendur Rásar 2 hafi ekki vakið máls á þessu í kynningu viðtalsins. Þess í stað sögðu þau frá því að Facebook-færslan hans hafi verið svo merkileg að þau hafi hreinlega þurft að kalla hann til viðtals. Þetta er ekki síður furðulegt í ljósi þess að það þarf ekki annað en að fara inn á Facebook-síðu lögmannsins til þess að sjá hversu kyrfilega merktur hann er Samfylkingunni. Hvað gengur þáttastjórnendum eiginlega til?

Eftirspurnin eftir skoðunum þessa merkilega lögfræðings virðist vera óþrjótandi í Efstaleitinu. Hann var einnig einn viðmælanda Vikulokanna þar síðustu helgi. Hafði þó Urður Örlygsdóttir, þáttastjórnandi, fyrir því að kynna hann til leiks sem formann Félags frjálslyndra jafnaðarmanna en lét þess þó ekki getið að það er eitt landsfélaga Samfylkingarinnar.

***

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta lék tvo leiki fyrir luktum dyrum við Ísrael á dögunum í umspili um sæti í lokakeppni á heimsmeistaramótinu. Ýmsum spurningum varðandi hvers vegna leikurinn fór fram í kyrrþey og áhorfendum var meinað að styðja við liðið á pöllunum.

Eftir því sem næst verður komist hefur ísraelska liðið att kappi við önnur evrópsk handboltalið undanfarið án mikilla vandkvæða. Eigi að síður töldu lögregluyfirvöld sig ekki í stakk búin til þess að tryggja öryggi áhorfenda og leikmanna á vellinum og fór því fram við Handknattleikssamband Íslands að leikirnir færu fram fyrir luktum dyrum. Í tilkynningu HSÍ um málið segir:

Rík­is­lög­reglu­stjóri ráðlegg­ur Hand­knatt­leiks­sam­bandi Íslands að halda fyr­ir­hugaða lands­leiki við Ísra­el fyr­ir lukt­um dyr­um og án þess að aug­lýsa þá. Stjórn HSÍ hef­ur ákveðið að fara að þess­um ráðum rík­is­lög­reglu­stjóra enda hef­ur HSÍ ekki for­send­ur til að ganga gegn þeirri grein­ing­ar­vinnu sem unn­in hef­ur verið af embætt­inu.“

Á meðan umræðan í aðdraganda leiksins og eftir snerist fyrst og fremst um hvort íslensk landslið ættu yfir höfuð að etja kappi við fulltrúa ísraelskra íþróttasambanda fór minna fyrir vangaveltum um hvaða ógn þetta var sem embætti ríkislögreglustjóra greindi í aðdraganda leiksins. Var þetta trúverðug ógn um hryðjuverk? Eða taldi lögreglan sig ekki geta haft hemil á mótmælendum.

Sem kunnugt er var fámennur hópur sem mótmælti fyrir utan Ásvelli í Hafnarfirðinum þar sem að leikirnir fóru fram. Er þetta sami hópur og hefur komið saman við ýmis tækifæri til þess að mótmæla ísraelskum stjórnvöldum. Vissulega hávær hópur en ekki verður séð að hann hafi reynst sérlega hættulegur til þessa. Fulltrúar lögreglunnar þurfa að svara fyrir það að ef hún treystir sér ekki til þess að hafa gætur á þessum mótmælum og tryggt þar með að þau raski ekki daglegu lífi borgaranna í leik og starfi.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins.