Lofgjörð ársins
Það kom í ljós þegar Dagur B. Eggertsson lét af starfi borgarstjóra um síðustu áramót að í ráðhúsi Reykjavíkur var starfræktur kröftugur sértrúarsöfnuður. Útskýrir það vafalaust þann mikla vöxt sem var í stjórnsýslu borgarinnar í valdatíð Dags.
Mörgum í söfnuðinum varð hreinlega ekki sjálfrátt þegar Dagur lét af störfum. Eiríkur Hjálmarsson, starfsmaður Orkuveitunnar, er einn þeirra. Trúarhitinn var mikill þegar hann hamraði mikla lofrullu á Facebook-síðu sína:
„Takk Dagur, takk!
Takk fyrir að sýna fram á sanngjarnara samfélag.
Takk fyrir alúð við almannahagsmuni.
Takk fyrir umhyggju fyrir umhverfi og loftslagi.“
Og enn fremur:
„Takk fyrir að efla traust meðal fólks meðal heiðarleika.
Takk fyrir að kenna mér þolinmæði við að leysa úr snúnum málum.“
Hrafnarnir ætla að eftirláta sérfróðum guðfræðingum að ræða um hvort Eiríkur sé þarna að kallast á við Ljóðaljóð Gamla testamentisins eða fyrra bréf Páls postula til Kórintumanna. En allir hljóta að vera sammála um að trúarhitinn er mikill.
Drift ársins
Frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson kynntu á árinu nýtt frumkvöðlaog nýsköpunarfélag. Tilgangur félagsins er að veita frumkvöðlum fyrir norðan aðstöðu, faglega ráðgjöf og fjárstuðning og með þessu vilja frændurnir gefa aftur til samfélagsins og komandi kynslóða að eigin sögn.
Hrafnarnir eru sérstaklega ánægðir með nafngiftina á félaginu en það fangar tvö af helstu einkennum Akureyrar – EA sem stendur fyrir heimahöfn þessa mikla útgerðarbæjar og svo driftið sem er hápunktur Bíladaga á Akureyri ár hvert.
Plan ársins
Kristrún Frostadóttir og félagar í Samfylkingunni minntu fólk í sífellu á að þau væru með plan. Hefur engum manni verið jafn tíðrætt um plön sín frá því að Baldrekur var og hét í sjónvarpsþáttunum um Edmund Blackadder. Svo mikið tönnlaðist Kristrún á að Samfylkingin væri með plan að Inga Sæland tók upp á því að kalla hana starfsmann á plani með öll sín plön.
Þegar nánar var að gáð snerist planið um það sama og vanalega, hækkun skatta og aukin ríkisútgjöld.
Skattborgari ársins
Vinstri grænir lögðu til að íslenska rokið yrði skattlagt í tengslum við vindmyllustarfsemi. Hrafnarnir telja slíka skattlagningu hljóta að færa ríkissjóði miklar tekjur enda er ekki til nein auðlind sem er jafn óþrjótandi en norðanáttin á Íslandi. Flokkurinn féll af þingi í alþingiskosningum svo einhver bið er í að flokkurinn geti barist af krafti fyrir að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út mánudaginn 30. desember. Blaðið verður birt á vefnum fyrir áskrifendur klukkan 19.30, sunnudaginn 29. desember.