Þann 19. nóvember hélt milliverðlagningar teymi KPMG Law námsskeið þar sem fjallað var um mikilvæg atriði sem fyrirtæki þurfa að hafa hugafast í lok árs þegar kemur að milliverðlagningu. Þar sem árið er brátt á enda er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að fyrirtæki uppfylli öll skilyrði skjölunar. Hér að neðan er yfirlit yfir nokkur atriði sem veita skjölunarskyldum fyrirtækjum [1] leiðsögn við árslok:
1. Yfirlit yfir viðskipti milli tengdra aðila
Fyrirtæki þurfa að skrá öll viðskipti yfir landamæri milli tengdra aðila nákvæmlega. Þetta felur í sér að greina og rannsaka öll viðskipti til að tryggja að ekkert gleymist. Einnig þarf að fara yfir viðskipti sem hafa mögulega ekki verið rukkuð. Það er gott að bera saman viðskipti frá fyrra ári til að greina hvað hefur bæst við eða verið fellt niður.
2. Meta niðurstöður ársins hingað til
Greina þarf hagnað fyrir hver viðskipti fyrir sig á milli tengdra aðila og tryggja að hún sé í samræmi við milliverðlagningarstefnu fyrirtækisins (e. the Transfer Pricing Policy). Tryggja þarf að réttur kostnaðargrunnur sé notaður og gæta varhuga þegar um er að ræða viðskipti eins og lán, ábyrgðir og lausafjárstýringu (e. Cash Pooling). Ef um er að ræða ný viðskipti er mikilvægt að ræða verðlagningu og skjölunarkröfur við stjórnendur eða ráðgjafa.
3. Meta hugsanlegar leiðréttingar
Bera þarf saman áætlaðan kostnað við raunverulegan kostnað til að greina frávik. Einnig þarf að endurskoða samanburðargreininguna [2]: Er hún enn í gildi? Hversu nýleg er greiningin? Reglulegar uppfærslur eru nauðsynlegar til að tryggja að samanburður endurspegli markaðsaðstæður.
4. Huga að áhrifum leiðréttinga
Ef þörf er á leiðréttingum varðandi milliverðlagningu fyrirtækisins þá þarf að meta áhrif þeirra vandlega. Leiðréttingar geta valdið misræmi milli bókhaldsins og framtalsins, en þar þarf að vera samræmi. Leiðréttingar geta einnig haft áhrif á virðisaukaskatt og tollgjöld. Íhuga þarf afar vel framkvæmd leiðréttingarinnar.
5. Samstarf og samskipti innan fyrirtækis
Samskipti milli deilda eru lykilatriði þegar unnið er með milliverðlagningu. Skatta- og endurskoðunarteymi þurfa að vera upplýst og á sömu blaðsíðu til að tryggja samræmi. Rekstrarteymið þarf einnig að vera vel upplýst til þess að hafa betri yfirsýn við fjárhagsáætlunargerð næsta árs. Lögfræðideildin verður að hafa auga með samningum sem gilda fyrir viðskiptin og uppfæra samningana ef eitthvað hefur breyst. Í raun þurfa allar deildir að vinna náið saman.
6. Undirbúningur skjölunar
Síðast en ekki síst þá þarf að útbúa skjölunina tímanlega. Sterk skjölun er nauðsynleg til að viðhalda samræmi og draga úr líkum á deilum við skattyfirvöld.
Þar sem árið er að líða undir lok er mikilvægt fyrir skjölunarskyld fyrirtæki að skoða sína stöðu. Með því að yfirfara viðskipti og tryggja samræmi við milliverðlagningarstefnu félagsins er hægt að forðast kostnaðarsamar endurákvarðanir og sektir.
Gréta Stefánsdóttir lögfræðingur og Veena Parrikar, PhD í hagfræði starfa báðar hjá KPMG Law.
[1] Skjölunarskyldir aðilar á Íslandi eru fyrirtæki eða útibú með veltu eða heildareignir yfir einum milljarði og eiga í viðskiptum við tengdan erlendan aðila.
[2] Samanburðargreining (e. benchmarking analysis) í milliverðlagningu felur í sér að bera saman verð eða skilmála tengdra aðila við sambærileg viðskipti ótengdra aðila á markaði. Markmiðið er að tryggja að verðlagning sé í samræmi við armslengdarregluna, þ.e. að hún endurspegli markaðsverð.