Ólíkt hafast þeir að svo mikið er víst.
Fyrr á þessu ári tilkynnti Ásgeir Jónsson öllum að óvörum um breytingu á bindiskyldubankanna. Bindiskyldan á vaxtalausum innstæðum var hækkuð úr 2% yfir í 3% af bindigrunni lánastofnana.
Ákvörðunin þýddi þriggja milljarða kostnaðarauka fyrir bankana. Hækkunin var ekki rökstudd með neinni sérstakri vísun í markmið peningamálastefnunnar enda var ekkert um slíkt að ræða. Þetta er þriggja milljarða fegrunaraðgerð á rekstrarreikningi bankans.
Með öðrum orðum var þarna verið að soga enn meira fé frá hluthöfum bankanna á kostnað þeirra og viðskiptavina bankanna. Þetta var réttlætt með að vísa til kostnaðarins sem fellur til vegna gjaldeyrisforða Seðlabankans en það er fyrirsláttur. Hvorki hluthafar bankanna né viðskiptavinir hafa meira gagn en aðrir íbúar þessa lands af stórum gjaldeyrisforða og ekki er þeim sérstaklega umbunað þegar gengishagnaður fellur til vegna forðans.
Breski fjármálaráðherrann skýtur niður hugmynd
Lítil umræða skapaðist um þessa ákvörðun Seðlabankans. Þessu var ólíkt farið í Bretlandi. Í aðdraganda þingkosninganna bárust hugmyndir vinstri sinnaðra hagfræðinga um að Englandsbanki myndi ekki borga vexti af innstæðum viðskiptabanka og myndi þar með „sparnað“ fyrir hið opinbera.
Það vakti athygli hrafnanna að Rachel Reeves, sem varð svo fjármálaráðherra ríkisstjórnar Verkamannaflokksins eftir kosningarnar, skaut þessa hugmynd alfarið niður og sagði hana grafa undan virkni peningamálastefnunnar.
Sem fyrr segir átti engin slík umræða sér stað hér á landi. Enda virðist ríkja þverpólitísk sátt hér á landi um að tilgangur einkageirans sé að fóðra vöxt hins opinbera og stofnana þess.
Loftlagsstjórinn og allir hinir fá tæpa þrjá milljarða í laun
Að þessu sögðu er áhugavert að skoða nýbirt uppgjör Seðlabankans á rekstrinum á fyrri hluta ársins. Þrátt fyrir breytingar á bindiskyldunni var tæplega átta milljarða tap af rekstri Seðlabankans á tímabilinu.
Seðlabankinn greiddi tæplega þrjá milljarða í laun og launatengd gjöld á fyrri helmingi ársins og hækkuðu þær greiðslur um 250 milljónir milli ára.
Hrafnarnir telja að þetta megi alls ekki vera minna enda heldur bankinn úti stöðugildum á borð við loftlagsstjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra mannauðs, að ekki sé minnst á allan þann fjölda aðstoðarseðlabankastjóra sem starfa við bankann. Þá hækkaði annar rekstrarkostnaður um 30% milli ára og eftirlitsgjöld á einkageirann um milljarð.
Það er greinilegt að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hefur skilað miklu hagræði.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.