Jarðhitinn er stærsti orkugjafi á Íslandi. Um 60% af allri orku sem notuð er hér á landi er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu.
Jarðhitinn er stærsti orkugjafi á Íslandi. Um 60% af allri orku sem notuð er hér á landi er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu.
Það eru alls 43 TWst sem er tvöfalt meiri orka en framleidd er af rafmagni. Á meðan nágrannalönd okkar kynda húsin sín að stórum hluta með innfluttu jarðefnaeldsneyti notum við heita vatnið okkar, sem er stór liður í því hversu langt við erum komin í að vera óháð öðrum þjóðum um orku.
Mikilvægi jarðhitans fyrir íslenskt samfélag lá ekki alltaf í augum uppi. Árhundruðum saman grunaði engan hversu mikill auður væri fólginn djúpt í jarðlögum undir landinu. Fyrst um sinn var jarðhitinn nýttur á stöku stað til þvotta og baða en eftir að við byrjuðum að leiða heitt vatn inn í húsin okkar fyrir um 100 árum varð efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur fljótt ljós.
Á Íslandi njótum þeirra forréttinda að hafa góðan aðgang að heitu vatni sem hitaveitur landsins sjá um að færa okkur. Í dag eru vel yfir 90% húsa á Íslandi hituð með hitaveitu og allir þekkja lífsgæðin sem fylgja því að fara í góða sturtu, í heitt bað eða skella sér í sund.
Nú vitum við einnig hversu mikill ávinningurinn fyrir loftslagið er. Vegna nýtingu jarðhita til húshitunar höfum við komið í veg fyrir árlega losun 20 milljón tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, sem er rúmlega fjórfalt það sem Ísland losar í dag.
Það er ekki sjálfgefið að búa að slíkri auðlind og geta nýtt hana. Það var mikið frumkvöðlastarf á sínum tíma og krafðist mikillar framsýni. Það krefst ekki síður mikillar vinnu að viðhalda þeim mikla árangri og ávinningi sem hitaveitan hefur fært okkur. Því þó að orkuskiptum í húshitun sé formlega lokið, þá þarf að viðhalda þeim í takt við vöxt samfélagsins.
Gert er ráð fyrir að íbúum á Íslandi hafi fjölgað um 22% árið 2050 miðað við árið 2021 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar og verði yfir 450.000. Hæsta spá Hagstofunnar gerir svo ráð fyrir að aukningin frá 2021 verði um 70% til ársins 2070 og verði þá rúmlega 625.000.
Þessi aukni mannfjöldi mun kalla á samsvarandi aukningu í notkun heits vatns. Samkvæmt jarðhitaspá Orkustofnunar hefur meðalnotkun heimila aukist jafnt og þétt síðustu ár, þrátt fyrir miklar framfarir í einangrun húsa og aukinnar notkunar gólfhita.
Hlutur atvinnulífs í eftirspurn eftir jarðvarma mun einnig aukast töluvert miðað við spá Orkustofnunar. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Spáin gerir ráð fyrir að þarfir atvinnulífsins taki fram úr jarðvarmanotkun heimila þegar fram líða stundir.
Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. Hitaveiturnar neyðist því til að leita sífellt lengra að nýjum vinnslusvæðum með tilheyrandi kostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Auk þess er jarðhitaauðlindin viðkvæm og jarðhitasvæði sem henta til nýtingar eru ekki óþrjótandi. Það tekur ár og stundum áratugi að finna heppileg svæði til nýtingar, bora rannsóknarholur og rannsaka hver afkastageta svæðisins er. Eins og staðan er í dag eiga hitaveiturnar fullt í fangi með að anna núverandi heitavatnsnotkun og við blasir að til skerðinga getur komið í kuldaköstum þegar borholur hafa ekki undan.
Hitaveiturnar starfa í þágu viðskiptavina sinna og er því umhugað að nýta þær auðlindir og fjármuni sem þeim hefur verið treyst fyrir á sem bestan hátt. Við getum öll tekið þátt í því að fara vel með heita vatnið og þar með lágmarka umhverfisáhrif og kostnað. Ennfremur þurfa stjórnvöld að styðja við jarðhitaleit um allt land svo við getum haldið áfram að njóta þeirra forréttinda sem heita vatnið okkar er.