Íslenskir fjölmiðlar hafa gegnum tíðina varpað fram sérkennilegri mynd af samkeppnismarkaðnum í íslensku efnahagslífi. Gjarna er því haldið fram að hér sé landlægur skortur á samkeppni og fákeppnin allsráðandi. Hvorki Samkeppniseftirlitið né Neytendasamtökin hafa gert tilraunir til þess að leiðrétta þessa umræðu.

Væntanlega sjá forráðamenn þeirra bæja ekki hag sínum best borgið með því.
Staðreynd málsins er að hér á landi er virk samkeppni á flestum sviðum – það eru helst ríkisumsvif sem skekkja þá mynd. Fjölmiðlar reyna sjaldnast að varpa ljósi á þessa staðreynd.

Vissulega einkennast markaðir eins og með dagvöru, fjármálaþjónustu, eldsneyti og fjarskipti af fákeppni. Það er eðli slíkra markaða og það sama er uppi á teningnum í öllum öðrum þróuðum hagkerfum. Fákeppni felur ekki í sér skort á samkeppni heldur er um að ræða lýsingu á ákveðinni tegund markaða sem kalla fyrst og fremst á stærðarhagkvæmni og það leiðir af sér að nokkur fyrirtæki slást um stærsta hluta markaðshlutdeildarinnar.

***
Stundum læðist að manni sá grunur að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafi engan skilning á þessari staðreynd og gangi út frá því að eftir því sem fleiri fyrirtækin eru og markaðshlutdeild hvers og eins er minni því meiri er samkeppnin. Í þessu samhengi er rétt að vísa til áhugaverðrar ritdeilu Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði, og Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, sem fór fram á síðum Morgunblaðsins í fyrra. Þar gagnrýnir sá fyrrnefndi forstjórann fyrir að hafa engan hagfræðilegan skilning á grundvallaratriðum á borð við stærðarhagkvæmni og þýðingu hennar fyrir samkeppni á
markaði.

Að vísu er það rétt að kenningin um fullkominn markað felur í sér að engar aðgangshindranir eru að markaðnum og þar af leiðandi starfa á honum fjöldi fyrirtækja sem selja allar vöru á sama verði þar sem samkeppnin sér til þess að verð getur hvorki verið hærra né lægra en jaðarkostnaður.

Sú kenning er sett fram til þess að aðstoða nemendur á fyrsta ári í hagfræðinámi við að öðlast skilning á lögmálum framboðs og eftirspurnar. Hún er ekki sett fram sem viðmið við stjórn samkeppnismála – enda er veruleikinn þannig úr garði gerður að aðgangshindranir eru alltaf til staðar með einum hætti eða öðrum.

Ef menn eru á öðru máli ættu þeir að velta fyrir sér fjölda gleraugnabúða á höfuðborgarsvæðinu og háu þjónustustigi þeirra. Sá fjöldi er fyrst og fremst vegna óeðlilega mikillar framlegðar af sölu gleraugna og umgjarða fremur en harða og skilvirka samkeppni. Fjölmiðlarýnir veit ekki til þess að Samkeppniseftirlitið hafi sýnt þeim mikilvæga markaði nokkurn áhuga.

***

Að þessu sögðu er áhugavert að skoða niðurstöður könnunar sem Samkeppniseftirlitið gerði um viðhorf almennings til samkeppnismála í fyrra og birti á vef sínum fyrr í mánuðinum. Samkeppniseftirlitið dregur saman niðurstöðurnar með eftirfarandi hætti:

„Vandamál sökum skorts á samkeppni útbreidd hér á landi

  • Um og yfir 8 af hverjum 10 Íslendingum hafa upplifað vandamál sökum skorts á samkeppni í samanburði við um 6 af hverjum 10 í ESB.
  • Íslendingar verða mest varir við vandamál sökum skorts á samkeppni á matvörumarkaði (36%), í fjármálaþjónustu (35%) og farþegaþjónustu (26%). Í könnun ESB nefna hins vegar flestir orkumarkað, matvörumarkað og síma- og netþjónustu.
  • Hátt verð og lítill verðmunur er oftast nefnt þegar spurt er hver séu helstu vandamálin á viðkomandi mörkuðum."

Þegar könnunin er skoðuð sést glögglega að ekkert í henni gefur tilefni til að fullyrða um að vandamál sökum skorts á samkeppni séu útbreiddari hér á landi en annars staðar ólíkt því sem Samkeppniseftirlitið heldur fram.

Í fyrsta lagi er spurningin sem stuðst er við ákaflega opin og segir lítið í raun og veru. Hún er þessi:

„Hefur þú einhvern tímann upplifað vandamál sökum skorts á samkeppni á einhverjum mörkuðum, sem leiddu til hærra verðs, takmarkaðs úrvals af vörum eða söluaðilum eða minni gæða? Vinsamlegast veldu þann markað, af eftirfarandi, þar sem þú telur þig helst hafa upplifað slík vandamál, ef við á.”

Í fyrsta lagi þarf skortur á samkeppni ekki endilega að vera um að kenna ef vöruverð hækkar og það sama á við þegar vörur hverfa í hillum verslana þar sem aðspurður venur komur sínar. Í öðru lagi hefur samkeppnin einmitt leitt til þess að menn geta breytt neysluvenjum sínum til að bregðast við slíku og skiptir alþjóðleg netverslun miklu í því samhengi.

Í öðru lagi er spurningin það óljós að það er engan veginn ljóst hvað hún mælir nákvæmlega. Í besta falli er hægt að fullyrða að aðspurðir hafi einhvern tíma orðið pirraðir – jafnvel skúffaðir – vegna verðbreytinga eða breytinga á vöruframboði og spurningin gerir það að verkum að þeir reki það til skorts á samkeppni. En það segir ekkert um hin raunverulegu orsakatengsl.

***

En það er eigi síður ýmislegt áhugavert við könnunina. Þá sérstaklega hvað hinn mældi pirringur virðist ekki vera í neinum tengslum við samþjöppunina á viðkomandi markaði.
Þannig segir í kynningu könnunarinnar að Íslendingar verði mest varir við samkeppnisvandamál á matvörumarkaði og fjármálaþjónustu. Hins vegar verða þeir minnst varir við þau þegar kemur að eldsneytismarkaði, orkumarkaði og markaðnum með síma- og netþjónustu.

Það sem er áhugavert við þetta er að pirringurinn virðist ekki fylgjast með hvort mikil samþjöppun sé á viðkomandi markaði eða ekki. Samkeppniseftirlitið styðst gjarnan við svokallaða Herfindahl-Hirschman-vísitölu þegar kemur að mælingum á samþjöppun á markaði. HHI-stuðullinn er summa ferningstalna markaðshlutdeilda fyrirtækja á markaði. Gildi stuðulsins liggur á milli 0 og 10.000, en því hærra sem gildið er þeim mun meiri er samþjöppun á markaði. Ef gildið á markaðnum er á bilinu 1500-2500 er samþjöppun hóflega mikil ef gildið fyrir 2500. Rétt er að taka fram að stuðullinn hefur verið gagnrýndur gegnum tíðina fyrir að líta algjörlega framhjá sérkennum hvers markaðar – það er eitt að selja skrúfur og rær en annað að selja rafmagn og heitt vatn, svo eitthvert dæmi sé tekið.

Þannig hefur HHI-gildi síma- og netþjónustu og á dagvörumarkaðnum auk eldsneytismarkaðar verið á bilinu 2000-3200 stig sé miðað við árslok 2021. Gildið fyrir dagvöru á án efa eftir að minnka verðið af samruna Skeljar og Samkaupa. Samþköppunin er óbvíða meiri en á orkumarkaðnum - kringum 5000 stig -en þátttakendur í könnuninni hafa hvað minnst að kvarta yfir henni. Gildið er svo aftur á móti hvergi lægra á þessum mörkuðum þegar litið er til fasteignalána heimila – sem er þeirra stærsta fjárhagslega skuldbinding í langflestum tilfellum – eða kringum 1800.

***

Það vekur einnig athygli við könnunina að það sem fer helst fyrir brjóstið á neytendum er að verðið sé annaðhvort of hátt eða þá að of lítill verðmunur sé á milli fyrirtækja á sama markaði. Eins og fyrr segir þá segir verðið eitt og óstutt lítið um hversu mikil samkeppni er á markaðnum. Nærtækara er að horfa til kennitalna á borð við framlegð í því samhengi en þegar kemur að dagvöru er hún að öllu leyti samanburðarhæf við framlegð evrópskra fyrirtækja á dagvörumarkaði sem eru sambærileg við þau íslensku. Fjármálaþjónusta hér á landi er fyrst og fremst dýrari vegna skattaumhverfis og stærðar bankakerfisins.

Eins og sagði við upphaf pistilsins þá mælir kenningin um fullkomna samkeppni fyrir um einsleitni verðs á markaði þar sem hennar nýtur við. Í því ljósi er hægt að líta á lítinn verðmun milli fyrirtækja á sama markaði sem merki um virka samkeppni. En jafnvel það fer fyrir brjóstið á neytendum samkvæmt könnuninni.

Kannski er bara hundur í hluta íslenskra neytenda óháð samkeppnisumhverfinu?

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom 22. maí 2024.