Hver grunnskólinn á fætur öðrum hefur verið að mygla í Reykjavík og krakkar og kennarar að veikjast. Í kjölfarið taka við veikindaleyfi starfsfólks eða flutningur til annarra starfa en börnin sitja áfram í mygluðu húsnæði og upplýsingum um umfangið er haldið frá foreldrum.

Sum húsnæðismál eru á réttri braut. Loksins er komið svar við því hvernig LHÍ geti eftir áratugi sameinað starfsemi sína undir einu þaki. Hætt er við plön um að setjast að í Tollhúsinu og flutt verður í húsnæði Tækniskólans, og aðrar deildir LHÍ sömuleiðis. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sparaði þarna tíu milljarða, og það á kosningavetri. Megi aðrir taka sér hana til fyrirmyndar.

En möguleikarnir eru ekki þar með tæmdir. Laugarnesskóli hefur mest verið í umræðunni nýlega en þar hafa skólastjóri og tugir kennara hrakist frá störfum síðustu árin meðan um 600 nemendur skólans hafa enga aðra kosti en að sitja og anda að sér myglunni í sex tíma á dag, án þess nokkuð sé vitað um langtíma áhrif á börnin. Þau eru ekki látin njóta vafans.

Hvernig væri að gera skipti? Í göngufæri frá Laugarnesinu er Höfðatorg, þar sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkur hefur aðsetur. Þangað gætu yngri börnin farið og elstu börnin gætu skutlast með skólabíl í Ráðhúsið og nýtt þar rými skrifstofu borgarstjórnar. Þessu fólki hefur ekki þótt mikið tiltökumál að börnin og kennarar eyði sínum tíma í myglunni svo það má leiða að því líkur að þau séu tilbúin að eyða sjálf vinnudeginum í Laugarnesskóla. Við þetta sparast verulegar fjárhæðir og rask fyrir nemendur. Látum börnin njóta forgangs. Nóg hefur nú þegar verið lagt á þau.

Höfundur er hugbúnaðarverkfræðingur.