Atvinnurekendur eru stór kjósendahópur. Ætla má að af um tuttugu þúsund launagreiðendum á Íslandi sé um helmingurinn einyrkjar, í vinnu hjá sjálfum sér. Meirihluti hinna tíu þúsund eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki, þar sem jafnvel talsverður hópur fólks í hverju fyrirtæki lítur á sig sem atvinnurekendur, þótt viðkomandi séu líka í launuðu starfi. Atvinnurekendur eru því einhverjir tugir þúsunda kjósenda.

Atvinnurekendur eru stór kjósendahópur. Ætla má að af um tuttugu þúsund launagreiðendum á Íslandi sé um helmingurinn einyrkjar, í vinnu hjá sjálfum sér. Meirihluti hinna tíu þúsund eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki, þar sem jafnvel talsverður hópur fólks í hverju fyrirtæki lítur á sig sem atvinnurekendur, þótt viðkomandi séu líka í launuðu starfi. Atvinnurekendur eru því einhverjir tugir þúsunda kjósenda.

Hvað er líklegast að ráði því hvernig atvinnurekendur ráðstafa atkvæði sínu? Starfsumhverfi fyrirtækjanna og möguleikar þeirra til að fjárfesta og skapa störf, samfélaginu til góðs, er númer eitt, tvö og þrjú.

Fjármagn til fjárfestinga og vaxtar er alltof dýrt og fráfarandi ríkisstjórn hefur ekki tekizt að ná niður vöxtunum. Hærra vaxtastig en í samkeppnislöndum skerðir samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja, ekki sízt þeirra minni og meðalstóru sem ekki hafa aðgang að lánsfé í stöðugum gjaldmiðli. Það er hægt að benda á að vaxtalækkunarferli Seðlabankans sé hafið – en hverjar eru líkurnar á að íslenzk fyrirtæki muni borga sömu vexti af lánsfé og t.d. dönsk eða sænsk og hvaða stefnu þarf að fylgja svo það megi verða?

Annað algengt umkvörtunarefni atvinnurekenda er alltof flókið regluverk. Í tíð fráfarandi ríkisstjórnar var vel að því staðið að leiða fram tilhneigingar bæði embættismanna og stjórnmálamanna til að „gullhúða“ reglur sem teknar eru upp í EES-samninginn, þ.e. bæta við þær séríslenzkum reglum sem eru íþyngjandi og dýrar fyrir fyrirtækin. Kosningaloforð undanfarinna ára hafa hins vegar ekki skilað sér í einföldun regluverks atvinnulífsins. Eru einhverjar betri hugmyndir á borðinu fyrir þessar kosningar?

Atvinnurekendur gegna lykilhlutverki í samfélaginu og verðmætin, sem þeir skapa, eru undirstaða þess að hægt sé að skapa velmegun og velferð. Hafa flokkarnir svör við spurningum þeirra um rekstrarumhverfið?