Á sunnudag var maður drepinn í Hafnarfirði, með óvenjuhrottafengnum hætti, en jafnframt ljóst að lögreglan hafði ekki á miklu að byggja við rannsóknina. Fórnarlambið var af þekktri fjölskyldu og meðan lögregla sinnti frumrannsókn hófu þegar að ganga miklar sögur um bæinn um hvernig í pottinn kynni að vera búið.
Fram hefur komið að sumt af því var í samræmi við eftirgrennslan lögreglu, annað ekki eins og gengur. Þegar þetta er ritað hefur málið ekki enn verið upplýst, sem er fremur óvanalegt á Íslandi, hér kemur vanalega skjótt á daginn hvernig í svona hörmungarmálum liggur.
DV lagðist yfir þetta mál af miklum krafti og varð ágætlega ágengt við að greina frá atburðarásinni. Ekki er að efa að blaðið svalaði fréttaþorsta landsmanna vel þessa daga, en fréttirnar streymdu glóðvolgar á vefinn hjá þeim.
Þegar á mánudag greindi DV frá nafni hins látna á undan öðrum miðlum. Ekkert var út á það að setja, nafn mannsins hafði spurst út og eftir því sem næst verður komist hafði öllum nánustu ættingjum verið sögð ótíðindin.
Næsta nafnbirting var hins vegar ekki í lagi. Lögreglan handtók mann, sem fékk réttarstöðu grunaðs manns, og tók til yfirheyrslu. DV fékk pata af nafni mannsins, en hann hafði fellt hug til unnustu hins látna og opinberað það á netinu á liðnu ári. Frá öllu þessu greindi DV. Nafn mannsins var birt ásamt stórri mynd af honum og frásögn af tengingu hans við hinn myrta.
Manndrápinu var þegar lýst sem ástríðuglæp og bollalagt út frá ástarjátningu mannsins. Sumir myndu segja að DV hafi velt sér upp úr þessu, en blaðamaður þess miklaðist af þessari stórfenglegu afhjúpun á Facebook og gaf jafnvel til kynna að blaðamenn DV kynnu að hafa heimildir um að maðurinn hafi játað. Við misjafnar undirtektir.
Gallinn var sá að eftir yfirheyrslur var maðurinn látinn laus og lögreglan kvaðst ekki hafa tilefni til þess að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum. Hann situr hins vegar uppi með það að DV hefur opinberað hann sem mögulegan morðingja.
***
Skoðanir hafa verið skiptar um nafnbirtingar DV á sakborningum um áraraðir. Sumir vilja að engin nöfn séu birt fyrr en sekt er sönnuð. Fjölmiðlarýnir er sammála DV um að það sé fráleit regla í umfjöllun af fréttnæmum sakamálum.
Þegar fjölmiðlar greina frá því að sakborningur sé fasteignasali á Austfjörðum á fertugsaldri er ekki mörgum til að dreifa, en þeir liggja þá allir undir grun almennings. Þá er hreinlegra að gera það sem fjölmiðlar eiga að gera: segja fréttina og draga ekkert undan. Það kann að vera ósanngjarnt gagnvart sakborningnum, en því verður ekki öðru vísi farið. Hann sætir opinberri ákæru með öllu því, sem því fylgir.
Í þessu máli átti það hins vegar ekki við. Maðurinn hafði verið handtekinn af lögreglu, sem má halda honum í sólarhring án dómsúrskurðar. Það hafði ekki einu sinni verið farið fram á gæsluvarðhaldsúrskurð, hvað þá að hann hafi verið veittur. Enn síður hafði verið gefin út ákæra.
DV hlýtur að geta beðið í sólarhring áður en það fer að básúna nöfn og myndir af fólki, sem lögreglan tekur til yfirheyrslu. Þegar kominn er gæsluvarðhaldsúrskurður gegnir öðru máli, þá liggur að baki rökstuddur grunur eða ríkir rannsóknarhagsmunir, sem dómari hefur viðurkennt að dugi til frelsissviptingar. Þá getur DV birt nafn, jafnvel mynd eftir smekk. En fyrr ekki.
***
Reynir Traustason, ritstjóri DV, falaðist eftir viðtali við manninn og sagði blaðið alls ekki hafa verið að halda fram sekt mannsins, aðeins að hann hafi verið grunaður. Kæmi í ljós að hann væri saklaus myndi blaðið vitaskuld greina frá því. Jamm. „Nýjustu fréttir! Þessir eru saklausir í dag: …“
DV sagði ekki fullum fetum að maðurinn væri sekur, en efnistökin og hlökkunin í blaðinu sögðu sína sögu. Fáir lesendur drógu í efa að málið væri að upplýsast og að sökudólgurinn væri ástsjúkur ógæfumaður. Eftir að hann var látinn laus reyndu DV-menn að bera sig mannalega og færðu fram hefðbundin rök sín fyrir nafnbirtingum. Rökin eru gild, almennt og yfirleitt, en eiga sem fyrr segir ekki við á frumstigi málsins og ekkert liggur fyrir um rökstuddan grun.
Vafamál er að DV-menn hafi sjálfir trúað því sem þeir voru að segja. Það bendir a.m.k. til allnokkurrar sektarkenndar, að eftir að maðurinn var látinn laus úr haldi voru nokkrar fréttir DV um hann fjarlægðar af netinu.
***
Sem fyrr segir stóð DV sig að mörgu leyti vel í fréttaflutningi af málinu og gerir raunar enn. En þarna varð þeim á í messunni, af því að kappið bar þá ofurliði. Þegar það kom svo á daginn þegar maðurinn var látinn laus var forherðing eina opinbera svarið.
Öllum fjölmiðlum getur orðið á, ekki síst þegar atburðarásin er hröð og sérlega viðkvæm mál til umfjöllunar. En þá á að draga lærdóm af mistökunum í stað þess að þykjast ekki sjá eftir neinu.