Frumkvöðull er eins og atvinnuleitandi, þarf að koma vel fyrir og bera sig vel. Ekki síst þegar á móti blæs. Því þarf frumkvöðullinn að huga vel að sinni andlegu heilsu. Það getur verið einmannalegt og krefjandi að vera einn í stafni. Ein leið til þess að huga að sér er að eiga reglulega tíma með handleiðara, markþjálfa eða mentor. Einhvern sem er með þér í liði og er bara með þína velferð og þinna hugmynda að leiðarljósi.
Markþjálfi getur verið sá aðili sem skapar rými fyrir frumkvöðulinn að sjá smærri og stærri sigra í ferlinu, að fá að hugsa dýpra með og spyrja krefjandi spurninga. Kannski spurninga eins og t.d. er hér gengið til góðs? er verið að ná þeim árangri sem stefnt er að? Þarf að hugsa hlutina upp á nýtt? Er hægt að brjóta niður hugmyndina í minni bita? Hvað þarf til að hugmyndin eða frumkvöðullinn blómsti? Hvert skal fara, hvernig og hvers vegna?
Regluleg markþjálfun getur reynst ómetanleg. Að vera frumkvöðull þýðir að vera að ryðja nýja braut, brjóta blað, og fóta sig í nýju umhverfi. Markþjálfun getur opnað dyr að nýjum hugmyndum, eflt seiglu til að mæta áskorunum og aukið vellíðan. Markþjálfun á að efla trú og jákvæðar tilfinningar sem auka svo sköpunargáfuna og lausnamiðað hugsun og hjálpa þá við að hugsa út fyrir boxið.
Seigla er lykilþáttur í að komast í gegnum krefjandi aðstæður og ná árangri. Með því að greina og efla seiglu og styrkleika er hægt að bæta ákvörðunarferlið og bæta líðan. Seigla er flókið fyrirbæri og byggir bæði á hugsun, tilfinningum og líðan. Seigla er að vaxa við áskoranir og geta breytt erfiðleikum í öryggi. Breyta áhyggjum í ferli vonar og bjartsýni. Seigla er að ná sér eftir bakföll og aðlagast og helst bæta við sig í þroska og þekkingu.
Markþjálfun sem byggir á jákvæðri sálfræði og vinnusálfræði getur hjálpað við að viðhalda þrautseigju, vinna með styrkleika, bæta árangur og gera áætlun um að blómstra. Jákvæð sálfræði sker sig kannski frá hefðbundinni sálfræði með því að leggja áherslu á núið og framtíðina og trúir á frjálsan vilja.
Kæri frumkvöðull, hugaðu vel að þinni andlegu heilsu og félagstengslum, bæði í persónulega lífinu og því faglega sem styðja þig í verkum þínu og gættu að því hvern þú velur að vera með þér í liði.
Höfundur er vinnusálfræðingur, markþjálfi og sérfræðingur í jákvæðri sálfræði.