Ákvörðun Halldórs Benjamíns Þorbergssonar að hætta hjá Samtökum atvinnulífsins kom hröfnunum töluvert á óvart.
Frá því Halldór Benjamín tók við hjá SA í árslok 2016 hefur hann staðið sig einkar vel. Skömmu eftir að hann mætti í Borgartúnið hófst ný gullöld í verkalýðsbaráttu, þar sem sósíalisminn var í hávegum hafður.
Náði gullöldin hámarki í þingkosningunum 2021 þegar Sósíalistaflokkur Íslands hlaut 4,1% í fylgi og Gunnar Smári Egilsson, formaður flokksins, var aðeins hársbreidd frá því að komast í þing.
Nú velta margir fyrir sér hver muni taka við af Halldóri Benjamín. Hrafnarnir hafa heyrt nafn Svanhildar Hólm Valsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands, nefnt í því samhengi sem og nafn Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út miðvikudaginn 5. apríl 2023.