Þær sorgarfréttir bárust á dögunum að Ívar Arndal, forstjóri ÁTVR, mun ekki sækjast eftir endurráðningu og mun því láta af störfum 1. september nk. Sem fyrr féll það í hlut Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, að svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið en hún staðfesti starfslokin við Ríkisútvarpið.
Má segja að það sé táknrænt fyrir arfleið Ívars enda hefur hann á tveggja áratuga starfsferli sínum við stjórnvölin aldrei svarað fyrirspurnum fjölmiðla eða gefið færi á viðtali. Fyrir vikið hefur fólk velt fyrir sér hvort maðurinn sé hreinlega til og hann hlotið viðurnefnið andlitslausi forstjórinn.
Hvað sem því líður mun Ívar og barátta hans fyrir löngu úreltu ríkiseinokunarmódeli í áfengissölu lifa í hjörtum þjóðarinnar um ókomna tíð.
Spennandi verður að sjá hvern Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra skipar í stað Ívars. Hröfnunum þykir liggja beinast við að vínkaupmaðurinn Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, hreppi hnossið.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.