Eins og margoft hefur sannast er Ríkisútvarpið óþreytandi í því að því finna nýjar leiðir til að eiga í beinni samkeppni við einkarekna fjölmiðla. Nægir þar að nefna innrás ríkismiðilsins inn á hlaðvarpsmarkaðinn.

Það kom því hröfnunum nákvæmlega ekkert á óvart þegar þeir rákust á auglýsingu frá stofnuninni um frumsýningu nýs spurningaþáttar næsta föstudagskvöld. „Er þetta frétt?“ heitir spurningaþátturinn sem er „í léttum dúr þar sem skemmtilegir keppendur spreyta sig á misalvarlegum fréttatengdum spurningum“ eins og segir í auglýsingunni. Kristjana Arnarsdóttir er spyrill en henni til halds og trausts verður fréttamaðurinn Birta Björnsdóttir.

Þessi lýsing kann að hljóma kunnuglega enda hefur grínistinn og fagfjárfestirinn Björn Bragi Arnarsson um nokkurra ára skeið haldið úti spurningaþættinum Kviss á Stöð 2. Áður stýrði hann Gettu Betur spurningaþáttum framhaldsskólanna sem Kristjana stýrir í dag. Hvort RÚV gangi alla leið og skipti þátttakendum í lið eftir því hvaða íþróttalið þeir styðja verður fróðlegt að sjá.

Ef Hrafnarnir þekkja stofnunina rétt verða flestir þátttakendurnir þeir sömu og eru mæta reglulega í Vikuna með Gísla Marteini, sem sagt fólk úr listaelítunni. Raunar er þáttur Gísla Marteins á dagskrá strax á eftir nýja spurningaþættinum á föstudögum svo tilvalið er að ná fram hinum eftirsóttu samlegðaráhrifum.

Hinn möguleikinn er að stofnunin rífi blaðsíðu úr dagskrá Rásar 2 í kringum fjörutíu ára afmælisfögnuð stöðvarinnar á síðasta ári og fái eigið starfsfólk til að etja kappi hvort gegn öðru. Hrafnarnir geta varla með nokkru móti ímyndað sér betra skemmtiefni til að gleyma stað og stund yfir eftir langa vinnuviku á föstudagskvöldi. Ef hrafnarnir fengju einhverju ráðið myndu þeir stilla fyrsta þættinum upp með þeim hætti að fréttaþulirnir knáu Bogi Ágústsson, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Heiðar Örn Sigurfinnsson myndu mæta fréttahaukunum Vali Grettissyni, Höskuldi Kára Schram og Þórdísi Arnljótsdóttur.

Verði það ekki til að bæta síhrakandi geðheilsu þjóðarinnar má teljast fullreynt að nokkuð annað geti gert það.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.