Íslenskur sjávarútvegur hefur náð miklum árangri við að draga úr olíunotkun fiskiskipa og þannig lagt sitt af mörkum til að draga úr loftslagsáhrifum af völdum útblásturs. Það hefur tekist með hagræðingu í flotanum, færri og stærri skipum og nýjum lausnum. Þegar horft er 35 ár aftur í tímann sést að olíunotkunin hefur dregist saman um 40%. Á sama tíma hefur heildarnotkun Íslands aukist umtalsvert.

Það þarf vart að hafa mörg orð um það að lega Íslands og helstu markaða fyrir íslenskar sjávarafurðir er með þeim hætti að olíu er þörf. Það þarf að veiða fiskinn, flytja hann og senda afurðir á markað, en um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld til útlanda. Íslenskar útgerðir bíða eins og allar aðrar útgerðir eftir því að tilraunir með grænt eldsneyti skili þeim árangri að það verði raunhæfur kostur. Þar hafa hlutir þróast hratt, þótt ekki séu enn í sjónmáli samkeppnishæfar og raunhæfar lausnir. Af þeim sökum er ekki gerlegt eins og er að skipta úr hefðbundnu eldsneyti í annað umhverfisvænna.

Dregur úr fjárfestingu

Aukin gjaldtaka mun gera það að verkum að erfiðara verður fyrir fyrirtækin að fjárfesta í umhverfisvænni tækni og nýjum lausnum. Hækkunin gæti því orðið til þess að vinna gegn loftslagsmarkmiðum stjórnvalda og orkuskiptum – fjárfestingum í raunverulegum grænum lausnum. Þá mun hækkunin veikja samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs.

Rétt er að nefna hér að stjórnvöld í Danmörku og Noregi hafa nýlega ákveðið að undanskilja fiskiskip frá slíku gjaldi vegna þess að það skerðir samkeppnisstöðu, færir olíutöku til útlanda, fyrir þá sem tök hafa á, og minnkar verðmætasköpun heima fyrir. Staðreyndin er því miður sú að gjaldið er skattur sem hefur verið hækkaður stjórnlaust undanfarin ár. Hækkunin er réttlætt með umhverfissjónarmiðum en er í raun grænþvottur og mun með engu móti hjálpa umhverfinu þegar aðrir umhverfisvænni kostir eru ekki í boði.

Allir þessir milljarðar – en hvar enda þeir?

Frá því að kolefnisgjald var lagt á árið 2010 hafa sjávarútvegsfyrirtæki greitt um 21,5 milljarð króna. Samtals hefur þjóðin greitt um 70 milljarða. Gjaldið hefur margfaldast frá því að það var fyrst lagt á. Verði nýtt frumvarp um enn frekari hækkun, þá hefur gjaldið hækkað um 841% frá því að það var fyrst lagt á. Er þá ekki einboðið að spyrja, hvert hefur peningurinn farið sem sjávarútvegurinn hefur greitt? Ekki í vegakerfið, ekki til að hjálpa til við orkuskipti í sjávarútvegi, ekki til að bæta samkeppnisstöðu og þaðan af síður til að styðja við aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Það er ljóst hverjum þeim sem vill sjá að gjaldið mun ekki hjálpa til við að takast á við loftslagsvandann. Fyrir atvinnugreinar sem ekki hafa aðra valkosti í orku þá mun gjaldið draga úr vilja og getu til að fjárfesta í nýjum lausnum. Til að bæta gráu ofan á svart er ekki hægt að útvega þeim uppsjávarfyrirtækjum sem rafvætt hafa sínar verksmiðjur nægjanlegt rafmagn. Á þeim bæjum brenna tugþúsundir lítra af olíu daglega þegar olíukatlarnir eru kynntir.

Það er ótækt að kolefnisgjald sé nýtt á þeim forsendum sem stjórnvöld gera - til tekjuöflunar en ekki grænna hvata. Þetta heitir grænþvottur og við hann má bæta þeim 18 milljörðum króna sem ríkið hefur innheimt vegna ETS-loftslagsheimilda. Fjárhagslegir hvatar til orkuskipta eru eðlilegir en þegar sá möguleiki er ekki til staðar er fjárhagslegi hvatinn ekki annað en skattlagning.

Kannski skiptir þetta engu máli

Tekjur íslenska ríkisins af kolefnisgjaldi og vegna ETS-loftslagsheimilda eru ekki markaðar með neinum hætti frekar. Þær renna beint í ríkissjóð og er síðan útdeilt með fjárlögum. Kannski er ekkert athugavert við það, en það er mikilvægt að stjórnvöld átti sig á heildarverði á kolefni á Íslandi samanborið við samkeppnisþjóðir og samfélagslegum áhrifum þess sem og áhrifum af kolefnisleka. Íslensk stjórnvöld virðast ekki hafa neina stefnu um ráðstöfun tekna vegna loftslags- og umhverfisskatta.

Í upphafi var spurt; hvert hefur gjaldið ekki farið. Svarið er einfaldlega, kolefnisskattar hafa ekki farið til loftslagsverkefna. Það er merkileg staðreynd, en kannski ekki óvænt.

Höfundur er sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS .