Nokkuð er liðið síðan hér var fjallað um bréf Arion banka til stjórnar Íslandsbanka með ósk um samruna. Viðbrögð stjórnar Íslandsbanka komu ekki á óvart því þótt hugmyndin hafi verið alveg hreint ágæt var hún óskaplega óraunhæf, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Óðinn bjóst við því, eftir að Íslandsbanki hafnaði umleitununum, að Arion banki myndi snúa sér beint að Kviku. En þá gerðist hið óvænta. Ekki neitt.

Hér á eftir fer pistill Óðins um beiðnir Arion og Íslandsbanka um samrunaviðræður við Kviku frá blaði gærdagsins í heild.

Sagan segir, og er hún víst sönn, að Arion banka menn hafi ekki ákveðið að senda tilboð til Kviku fyrr en þeir fréttu að Íslandsbanki hafi verið langt kominn með sitt tilboð.

Þetta er auðvitað mikill afleikur en Arion banka mönnum til varnar þá bjuggust fáir við því að ríkinu tækist að selja alla hluti sína í Íslandsbanka í vor, og því töldu þeir að enn væri nokkur tími til stefnu. Hið minnsta fram á haustið.

Um hvað munu viðræður snúast?

Ef til samningaviðræðna kemur um annað hvort tilboðið, sem er mjög líklegt, er þrennt sem mun ráða niðurstöðunni. Hvort menn komi sér sama um hver samlegðin er af samruna, hvernig samlegðinni er skipt og persónurnar.

Þann fyrsta júlí tekur ný reglugerð um varfærniskröfur til lánastofnana gildi. Hún flækir aðeins arðsemisútreikninginn því hún gæti haft töluverð, og jafnvel veruleg áhrif á arðsemi íslenskra banka. Síðast en ekki síst Kviku banka. Því gæti fyrsta atriðið, hver samlegðin yrði, orðið flóknara en ella.

Það sem er alltaf bitbeinið í samningum sem þessum er skipting hagræðingarinnar. Stærri aðilinn vill skipta henni eftir stærðinni og minni aðilinn vill skipta henni jafnt. Hvorug leiðin er rétt að mati Óðins. Eina rétta leiðin er að fara milliveginn, þráðbeint á milli beggja leiðanna.

Sumt fólk er upptekið af sjálfu sér og annað minna. En persónurnar sem semja um samruna tveggja félaga horfa alltaf til eiginhagsmuna að einhverju marki. Það er mannlegt.

Gjörbreytt samningsstaða

Staða Arion banka breyttist úr því að vera eini raunhæfi kostur Kviku banka til að sameinast í það að verða síðri kosturinn.

Tilboð Arion banka er lakara en Íslandsbanka og þá er það að minnsta kosti þessa stundina númer tvö af þeim sökum.

Einnig telja margir að það sé eftir meiru að slægjast fyrir hluthafa Kviku í Íslandsbanka en Arion. Bankinn sé nýkominn úr ríkiseigu og tækifærin til hagræðingar séu einfaldlega meiri.

Eitt sinn sagði fyrrum forstjóri Icelandair að samkeppni væri góð, fákeppni betri og einokun best. Það sama á við um samkeppnina að kaupa hvaða eign sem er. Ef enginn annar er um hituna er staða kaupandans miklu sterkari.

Staðan nú er því miklu mun verri fyrir Arion banka og stjórn og stjórnendur bankans hljóta að naga sig í handarbökin.

Skagamenn sitja eftir með sár enni

Menn bjuggust almennt við að lokinni sölu ríkisins á hlutunum í Íslandsbanka myndi bankinn snúa sér að Skaga og ræða nánari samvinnu eða sameiningu. Það kom því Skagamönnum í opna skjöldu þegar Íslandsbanki sendi Kviku banka bréf.

Margt getur enn gerst. Enn staðan þessa stundina er sú að Íslandsbanki er líklegri, Arion banki ólíklegri og Skaginn ekki með í leiknum.