Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu um liðna helgi. Í greininni slær forsætisráðherrann ryki í augu lesenda með það að augnamiði að sannfæra þá um að nýútgefin fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sé til þess fallin að slá á þenslu og draga úr verðbólgu. Því fer fjarri.

Í fyrsta lagi þá benda þær fjármála-áætlanir sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir hefur lagt fram á undanförnum árum ekki til þess að mikill skilningur sé á þörfinni fyrir ríkið að draga úr útgjöldum til þess að stemma stigu við verðbólgu. Sé fjármálaáætlunin frá árinu 2021 borin saman við fjármálaáætlunina sem lögð var fram á dögunum sést að spár um útgjöld ársins 2025 hafa hækkað um fjórðung. Með öðrum orðum: spá nýrrar fjármálaáætlunar um útgjöld ársins 2025 er fjórðungi hærri en í áætluninni sem lögð var fram fyrir tveimur árum.

Þetta bendir ekki til þess að ríkisstjórnin hafi mikinn skilning á þeim vanda sem við er að etja. Óhætt er að taka undir gagnrýni fjármálaráðs á fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að þó svo að bensínið sé ekki stigið til botns er hraði akstursins í engu samræmi við aðstæður á vegum úti – það er að segja tæplega 10% verðbólgu, 6% hagvöxt og hallarekstur sem nemur um 4% af landsframleiðslu.

Fjárlagaráð gagnrýnir að ríkisstjórnin nýti sér ekki auknar tekjur samhliða vaxandi umsvifum í hagkerfinu til þess að styrkja stöðuna með niðurgreiðslu skulda. Þess í stað renna þær áfram og óhindrað í útgjaldahítina.

Katrín boðar í grein sinni að ekkert verði gefið eftir í þessum efnum á næstu árum. Skattleggja á atvinnulíf og einstaklinga enn frekar svo hægt sé að fjármagna það ginnungagap sem ríkisreksturinn er um þessar mundir.

Þessa stefnu kallar forsætisráðherra viðspyrnu gegn verðbólgu. Það eru öfugmæli. Aukin skattbyrði festir þensluna í sessi þar sem skattfé ríkisins rennur óhindrað til útgjalda. Fyrirtæki og heimili hafa valkost um að verja hluta tekna til sinna í sparnað og þar af leiðandi er það þensluhvetjandi ef ríkið er seilast í enn stærri hluta verðmætasköpunarinnar. Í greininni segir orðrétt:

„Aðalatriðið er að ný fjármálaáætlun sendir skýr skilaboð. Ríkisstjórnin ætlar að ná verðbólgunni niður, með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru (…)“

Og enn fremur:

„Fram undan eru kjarasamningar og sú krafa stendur nú upp á forystu atvinnulífsins að sýna ábyrgð og gæta hófs í arðgreiðslum en leita fremur allra leiða til að koma í veg fyrir að hækkun á vöru og þjónustu leiti út í verðlagið.“

Skilaboðin eru alls ekki skýr. Þvert á móti. Ríkisstjórnin ætlast ekki til þess sama af ríkisrekstrinum og atvinnulífinu eins og skrif Katrínar bera með sér. Eða hefur einhver orðið var við það að ríkið sem er illu heilli stærsti atvinnurekandi landsins fylgi fyrirmælum forsætisráðherrans undanfarið? Hefur einhver orðið var við að smásöluverslanir ríkisins í Leifsstöð og þar sem ÁTVR er að finna hafi ásamt Íslandspósti, Landsbankanum, Vaðlaheiðargöngum, Farice, Hörpu, Ísavía, RARIK, Landsvirkjun tekið á sig kotnaðarverðshækkanir og „gæti hófs í arðgreiðslum“?

Arðgreiðslur ríkisfyrirtækja eru sama merki brenndar og skattahækkanir á verðbólgu- og þenslutímum. Þær næra bara útgjaldaþensluna. Þessu er öfugt farið með arðgreiðslur einkafyrirtækja. Þær eru einmitt sérstaklega eftirsóknarverðar á verðbólgutímum ef innistæða er fyrir þeim. Ástæðan er einfaldlega sú að arðgreiðslufyrirtæki veita almenningi tækifæri til þess að verja sparnað sinn sem annars gæti rýrst á neikvæðum vöxtum. Furðulegt má heita að forsætisráðherra hafi ekki skilning á þessu. Ekki síst í ljósi þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri benti á það nýlega að arðgreiðslur fyrirtækja á borð við bankana væru til þess að fallnar að styrkja markmið peningastefnunar.