Í starfi mínu er ég reglulega að fást við vandamál sem eiga uppruna sinn í slæmum samskiptum. Starfsfólki finnst það vanrækt, finnur ekki virði sitt, sálrænt öryggi skortir, það er orðið hrætt við að tjá sig, er orðið meðvirkt með aðstæðum, hefur misst allan áhuga á vinnustaðnum eða finnur fyrir gremju gagnvart samstarfsmönnum, yfirmönnum og öðrum deildum. Allt út af samskiptum. Fyrir vikið eru samskipti gjarnan hluti af minni ráðgjöf, í formi sáttamiðlunar og gerðar samskiptasáttmála, svo eitthvað sé nefnt.
![Ágúst Kristján Steinarsson.](http://vb.overcastcdn.com/images/138250.width-500.png)
Margt hefur verið rætt og ritað um samskipti en Charles Duhigg gaf nýlega út bókina Supercommunicators sem hefur breytt nálgun minni í samskiptum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að með frábærum samskiptum er hægt að ná fram taugasamhæfingu. Þetta er eitthvað sem allir kannast við og þegar það gerist flæða samskipti margfalt betur, viss vellíðan fylgir og verðmæt tengsl myndast. Taugasamhæfing ætti að vera markmið allra í samskiptum, en það er ansi oft sem það bregst. Ein algengustu mistökin sem við gerum er að vita ekki í hvers konar samtali við erum.
Skoðum einfalt dæmi. Vinur hefur samtal við þig um persónulega áskorun. Á meðan hann er að útskýra sína stöðu þá tekur þú ekki eftir því að hann er að leita að skilningi og stuðningi, þ.e. tilfinningalegu viðbragði. Þess í stað ferð þú beint í að reyna leysa vandann. „Af hverju gerir þú ekki bara X?" Framheilinn þinn er á fullu að greina og leysa vandamálið en þú ert í reynd að misskilja samtalið og ýtir þannig viðmælandanum frá þér. Svo gerist þetta aftur og aftur. Þetta erum við öll sek um.
Með því að hlusta fyrst og gera sig skiljanlegan síðan, er maður í mun betri aðstöðu til þess að vita í hvers konar samtali maður er. Í framhaldinu verða gæði samtalsins margfalt betri - og það næst jafnvel taugasamhæfing.
Samskipti eru ein birtingarmynd vinnustaðamenningar, þar sem viðhorf, venjur og gildi birtast í daglegum orðum og athöfnum. Það er í höndum hvers vinnustaðar hvort samskipti fái forgang eða ekki. Það er einfaldlega ákvörðun, sem er síðan fylgt eftir með aðhaldi og stuðningi. Þegar slík forgangsröðun er til staðar er tekið verðmætt skref í átt að einhverju sem ég kalla „viljandi menningu". En meira um það síðar.
Höfundur er stjórnunarráðgjafi í breytingum hjá Viti i ráðgjöf.